carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Rautt trúðanef · Heim · Iran has 150,000 American hostages »

Ábyrgð á athugasemdum

Carlos @ 23.25 28/4/06

Uppáhaldsbloggarinn minn er farinn að vakta og ritstýra athugasemdakerfið sitt. Einhverjir fáir setja inn rusl eða meiðandi ummæli auk þess sem dómstóll í Þýskalandi gerir eigendur bloggs ábyrga fyrir öllum aths. sem birtast á svæði þeirra. Þeir verða að lesa hverja aths. áður en hún fær að birtast. Við erum ekki komin svo langt sjálf, en spurning um hvenær það verður almenn skylda annálaritara og spjallborðsrekenda að fjaðratína athugasemdir lesenda sinna.

url: http://carlos.annall.is/2006-04-28/23.25.38/

Athugasemdir

Fjöldi 32, nýjasta neðst

Guðmundur Guðmundsson @ 29/4/2006 12.15

Víst erum við komin ‘þetta langt sjálf’. Allar athugasemdir á t.d. tru.is eru ritskoðaðar!

Örvar @ 29/4/2006 13.51

Ég hef alltaf haldið því fram að bloggarinn sjálfur ber ábyrgð á þeim ummælum sem birtast og hef haft klausu í þá átt í færslunni um bloggið mitt í mörg ár:

Öll ummæli sem birt eru á síðunum er jú einnig þar í mínu nafni þrátt fyrir að aðrir skrifi sig fyrir þeim og því hef ég endanlegt vald hvað varðar það sem fær þar að standa.

Það er fáránlegt að kalla það ritskoðun að fá ekki að ráða því hvað birtist á vefsíðum annarra.

Guðmundur Guðmundsson @ 29/4/2006 14.37

Auðvitað er það ekkert annað en ritskoðun að birta einungis athugasemdir, sem eru bloggstjóranum þóknanlegar.

Það er fáránlegt að gera eigendur bloggsíðna ábyrga fyrir athugasemdum sem þar birtast. Hvernig ætla menn að framfylgja slíkum bjánaskap? Á að gera mig t.d. ábyrgan ef einhver asni krotar kynþáttahatur á húsið mitt? Svona ólög eru ekkert annað en ritskoðun af verstu sort.

Carlos Ferrer @ 29/4/2006 18.49

Góður punktur, Guðmundur. Auðvitað er þetta hreinræktuð ritskoðun, sem dómstóllinn í Þýskalandi fer fram á að verði stunduð … það sem þú leyfir að standa er eitthvað sem þú getur varið. Getir þú það ekki, ættirðu að láta það hverfa.

Ég get ekki varið kynþáttahatur eða beinar persónuárásir á fólk. Ég get hinsvegar varið sterkar skoðanir sem eru á öndverðum meiði við mínar, svo fremi sem þau falla undir leikreglur lýðræðis og mannréttindasamfélags. Þannig skil ég allavega innihald dómsins þýska.

Örvar @ 29/4/2006 19.01

@Guðmundur: Húsakrotsdæmið þitt er nú ekki alveg sambærilegt — en já, ef þú lætur asnann óáreittan meðan hann krotar á húsið þitt eða lætur kynþáttahatrið standa þá mætti ætla að þú værir ánægður með það.

Hvernig er ritskoðun skilgreind, felst ekki í því að maður eigi rétt á að birta í ritinu til að byrja með? Og er ritskoðun ekki frekar breyting á því sem maður skrifar heldur en að leyfa manni ekki að birta?

Guðmundur Guðmundsson @ 29/4/2006 19.33

Guðmundi finnst fáránlegt að gera eigendur bloggsíðna ábyrga fyrir athugasemdum sem þar birtast. Er hver á að vera ábyrgur þegar lesandi getur skrifað ummæli undir hvaða nafni sem er? Þá tek ég undir það sem Örvar skrifar: Þá fyrst er hægt að tala um ritskoðun þegar ég á rétt til að skrifa á tiltekinn vef. Varla telst það það ritskoðun ef Mogginn hafnar aðsendu bréfi frá mér.

Carlos @ 30/4/2006 01.45

Hver skyldi vera munurinn á prentmiðli og bloggsíðu annað en þetta augljósa að Mogginn kemur á pappír en bloggið á vef? Ef litið er neðst á þessa síðu, má sjá að allt efni hér er verndað höfundarétti … ætla má að eigandi þessa bloggs beri líka ábygð á því sem hér er, enda hefur hann lyklavöldin, getur eytt og breytt.

Ég hallast að því að ákveðin ritstýring er af hinu góða, önnur ekki. En hvort ritstýring er sama og ritskoðun, ekki skv. þeirri skilgreiningu sem Örvar setur fram. Hvað segið þið?

Carlos @ 30/4/2006 01.49

Fyrsta aths., Guðmundar talar um ritskoðun á http://www.tru.is. Ertu til í að fara nánar út í það? Eftir því sem ég hef heyrt, ríkir þar sama ritstjórnarstefna (eða svipuð) og á vísindavefnum, en þú hefur e.t.v. aðra sögu að segja? Hver er hún?

Guðmundur Guðmunsson @ 30/4/2006 16.47

Ég hef sent inn nokkrar athugasemdir á tru.is, sem hafa ekki birst. Það er vert að taka fram að þær athugasemdir voru ekki hliðhollar þeim málefnum, sem pistlahöfundar fjölluðu um. Athugasemdirnar voru ekki margar eða miklar að vöxtum og ég á ekki afrit af þeim, en er ekki Árni Svanur ritstjóri trú.is? Hann hefur leyfi mitt til að birta þær hér ef hann á afrit.

Ég er ekki sammála því að ég sé að styðja kynþáttahatur (dæmið hér að ofan) ef ég mála ekki yfir dónaskapinn um leið. Veggjakrotið er skemmdarverk á húsinu hvort sem það er skiljanlegt eður ei. Væri hægt að gera borg og ríki ábyrg fyrir veggjakroti á brýr og opinberar byggingar? Með vefmiðla má spyrja, ef ég skrifa frá Íslandi á vefþjón, sem hýstur er í Indlandi hvaða lög ná þá yfir ósæmilegar athugasemdir??? Svoa lög eru lýsandi dæmi um það að leiðin til heljar er vörðuð góðum ásetningi.

Árni Svanur @ 30/4/2006 18.40

Ég fór í gegnum ummælin á trú.is og fann
tvenn sem þú hefur skrifað Guðmundur. Önnur eru rituð við jólapistil biskupsins, þau eru birt á vefnum; hin skrifaðir þú við pistil eftir einn presta kirkjunnar. Inntak þeirra var að pistillinn væri rugl og höfundurinn hundalógíker (þitt orðalag). Lokað var fyrir ummæli við þann pistil.

Örvar @ 1/5/2006 00.24

@Guðmundur: Hættu nú með þennan veggjakrotssamanburð því hann flækir bara málið. Þú getur heldur ekki varið veggjakrotið nema með því að bæta við “um leið”.

Öfugt við veggjakrotið þá opna menn fyrir ummæli við færslur því þeir hafa venjulega ekkert á móti þeim. Það þýðir ekki að þú öðlist þar með einhvern rétt til að fá það birt á vefsíðunni að þeir séu rugludallar að þínu mati.

Lögin sem ná yfir þig ná líka yfir ósæmilegu athugasemdirnar þínar. En áður en kemur til kasta laganna þá er beina leiðin eflaust farin og vefstjórinn beðinn um að fjarlægja þau. Vilji hann það ekki eða skeyti hann sig ekki um það þá eru athugasemdirnar á hans ábyrgð líka — um það snýst heila málið hér.

Birgir Baldursson @ 1/5/2006 07.15

Er ekki einfaldast að verjast ásökunum um rugludallahátt með því að hrekja slíkan málflutning með rökum?

Guðmundur Guðmundsson @ 1/5/2006 11.14

Gleðilega hátíð.

Örvar, þér finnst sem sagt ekket athugavert við það að vera settur í ritskoðunarhlutverkið?

Árni Svanur @ 1/5/2006 16.02

Ekki hef ég neitt á móti því að menn ræði málefnalega saman. Um það eru við ekki ósammála. Og víst er hægt að fara þá leið að þeir sem eru ásakaðir um rugludallahátt geti varið hendur sínar, en þá er umræðan komin á plan sem ég tel ekki æskilegt. Þetta snýst að mínu mati meira um framsetningarmátann. Ég geri einfaldlega þá kröfu að menn sýni pistlahöfundum og öðrum þátttakendum í umræðunni virðingu og komi fram af kurteisi.

Örvar @ 1/5/2006 16.54

@Guðmundur: Lestu nú fyrstu ummæli mín við færsluna — það þarf ekki að setja mér verk sem ég tel mitt til að byrja með. Ég tel menn ábyrga fyrir því sem þeir birta hvort sem það eru þeirra eigin orð eða annarra.

Hafsteinn @ 1/5/2006 18.59

Birgir þú ert nú meiri rugludallurinn! :p

Birgir Baldursson @ 2/5/2006 00.53

Sannaðu það! :)

Carlos @ 2/5/2006 09.27

Eh, Birgir, varst það ekki þú sem áttir að hrekja þetta sbr. 01/05?

Birgir Baldursson @ 3/5/2006 02.26

Sjáðu til: Ég átti við það þegar menn eru kallaðir rugludallar og með fylgir einhver rökstuðningur, eins og væntanlega hefur verið raunin í athugasemd Guðmundar Guðmundssonar. Slíku er hægt að verjast með rökum, þ.e. að hrekja röksemdafærslu andstæðingsins með betri málflutningi en hann hefur uppi. Þetta skortir hjá Hafsteini og því þarf að kalla eftir rökum hans fyrst.

Árni Svanur @ 3/5/2006 10.58

Ekki verður um það deilt að ef einn færir rök fyrir því að annar sé rugludallur þá má rökræða það. En ég stend þó fastur á minni fyrri skoðun: Slík umræða á ekki heima á trú.is.

Matti @ 3/5/2006 13.46

“Slík umræða á ekki heima á trú.is.”

En á slík prédikun heima þar? Prédikun sem ekki er hægt að kommenta frá aðila sem neitar að svara tölvupósti?

Ég bara spyr.

Árni Svanur @ 3/5/2006 15.00

Við vorum nú upphaflega að ræða um pistil en ekki prédikun. Ef þú átt við hana þá er svarið já, ég tel að þessi pistill eigi heima á trú.is.

Árni Svanur @ 3/5/2006 15.05

Við þetta má bæta að ég sé ekki alveg tenginguna milli þess að meta hvort eitthvað efni á heima á tilteknum vef og þess hvort umræða getur farið fram um það á vefnum eða hvort höfundurinn er duglegur að svara tölvupósti.

Matti @ 3/5/2006 18.37

Hér hefur orðið umræða um ritstjórnarstefnu þína á trú.is, ritstjórnarstefnu sem ég ætla ekkert að gagnrýna per se.

Þér finnst ákveðin tegund athugasemda ekki eiga heima á trú.is – ég spyr, gildir það sama um pistla og prédikanir sem þar birtast?

Ef ekki má (að þínu mati) kalla menn “rugludalla “í athugasemdum á trú.is (skv. ritstjórnarstefnu þinni) má þá kalla menn “hrokafulla”, “ekki þroskaða vitmenn” og segja um þá að hjá þeim sé “jafnan stutt í ofbeldið”?

Ég er bara að reyna að átta mig á þessu.

Árni Svanur @ 3/5/2006 20.24

Það ætti að vera ljóst af því sem ég skrifa hér að ofan að ég geri greinarmun á almennri umfjöllun um öfgahópa eins og í prédikun Sigurðar Árna (þar sem reyndar er bæði er fjallað um hópa trúaðra og guðlausra) og uppnefnum eða stælum sem beinast að nafngreindum einstaklingum (eins og í tilvikum Guðmundar og Hafsteins hér að ofan).

Til að lesendur annálsins hafi samhengi orðanna sem þú vitnar til hér að ofan þá læt ég þau fylgja:

Árni Svanur @ 3/5/2006 20.25

Sigurður Árni skrifar:

Þegar hroka er blandað í trúarvissu þá verður afleiðingin verri fyrir mannkynið en skelfilegasta fuglaflensa. Hroki í bland við allar gerðir af trú framkallar svartadauða meðal fólks. Vandinn er ekki trúin heldur hrokinn, sem fer svo illa með og í trú.

Efahyggjan er skárri en trúarofstæki því hún hvetur ekki til herferða, manndrápa og kúgunar með sama hætti. En hrokafull efahyggja er systir hrokafullrar trúar, að því leyti að hún smættir tilveruna, er í grunninn bókstafshyggja, sem ekki umber aðrar skoðanir, getur ekki unnt öðrum, að skilgreina litríki veraldar með öðrum hætti en skv. sinni forskrift. Kynnið ykkur boðskap þeirra, sem eru herskáir guðleysingjar. Þar finnið þið ekki þroskaða vitmenn, heldur hrokagikki, sem hæða og níða. Herskáir guðleysingjar eru bókstafstrúarmenn. Hjá slíkum er jafnan stutt í ofbeldið.

Carlos @ 3/5/2006 23.04

Mér sýnist Sigurður Árni eins hafa lýst öfgafulla og bókstafstrúaða trúmenn með þessum orðum sínum.

Matti @ 4/5/2006 11.56

Í stað þess að teygja umræðuna hér of langt út fyrir efnið bloggaði ég um þetta tiltekna mál.

Árni Svanur @ 4/5/2006 13.13

Matti svarar á annálnum sínum.

Árni Svanur @ 4/5/2006 13.14

Nú líður mér eins og bjána :) Ég gleymdi nefnilega að sækja síðuna áður en ég skrifaði síðustu ummæli, Carlos má gjarnan stroka þau út og þessi líka :)

Carlos @ 5/5/2006 11.35

Ummælum eytt, þar sem … löng saga. Nægir að segja að ég bað ÁSD að commenta fyrir mig á annál sinn … setti óvart efnið sem ég sendi til mín.

carlos.annáll.is - » Annáll @ 16/12/2007 15.18

[...] sem tekur við hverju sem er þrátt fyrir tilraunir eigandans að efnisflokka og kaflaskilja. Síðasta færsla apríl 2006 fékk 31 athugasemd, uppistaðan samtal við vantrúarpenna um ábyrgð vefeiganda á ummælum á [...]

Lokað er fyrir athugasemdir.

© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli