carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Sharon Brous · Heim · IEEE 1394b S3200 »

Annáll

Carlos @ 13.32 16/12/07

Fimm ár, fimm mánuðir og nítján dagar.
Ég byrjaði að blogga 27. júní 2002 og sé því fram á að eiga sex ára bloggafmæli um mitt sumar í sumar. Þá var ég um það bil að hætta á biskupsstofu. Árni Svanur hafði sýnt mér bloggkerfi sem hann vildi að guðfræðingar og prestar nýttu sér til að verða sýnilegir á netinu og ég var eitt af tilraunadýrunum. Fyrsta færslan fjallaði um vefstaðla, því að ég var tiltölulega nýbúinn að setja upp tilkynningavef barnakláms á vefinn fyrir samtökin Barnaheill, vefur sem þurfti og þarf að opnast eðlilega í öllum tölvum og vöfrum.

Þetta sumar var mikið breytingasumar hjá mér. Stuttu eftir opnun bloggsins tók ég þátt í NATO æfingunni “Samvörður” og sigldi inn í sumarið með virka umsókn um brauð og sumarvinnu við að lóðsa frönskum ferðamönnum um fjöll og firnindi. Ég bloggaði að jafnaði þrisvar til sex sinnum á mánuði í næstum ár, við litla athygli og þvínæst kom nokkurt blogghlé, sem entist eiginlega órofið til áramóta 2004.

Tsúnami og vantrúin
Flóðbygljan í austurasíu og samtal á vantrúarvefnum urðu til þess að bloggið mitt glæddist. Tuttugu og þrjár færslur í janúar og febrúar 2005, ein með yfir eitthundrað aths. í svarhala. Sú færsla var einskonar svar við “Imagine” færslu á vantrúnni, og einn af varanlegri ávöxtum þeirrar umræðu varð vinátta mín og hr. Pez, sem er raddfélagi minn í kórnum. Bloggáhuginn entist að páfakjöri, síðan tók við ellefu mánaða blogghlé.

Ábyrgð á ummælum og meiri van/trú
Blogg eins og þessi annáll er eins og hvítt blað sem tekur við hverju sem er þrátt fyrir tilraunir eigandans að efnisflokka og kaflaskilja. Síðasta færsla apríl 2006 fékk 31 athugasemd, uppistaðan samtal við vantrúarpenna um ábyrgð vefeiganda á ummælum á vef hans. Það er næstum því óþarfi að segja frá því en þær færslur mínar sem fjölluðu um guðfræðileg eða kirkjuleg álitamál fengu góðar viðtökur frá félögunum. Þegar ég horfi yfir þetta bloggtímabil sem nær til ársloka 2006 þá segi ég fullum hálsi að án Birgis, Hjalta og annarra vantrúarpenna hefði umræðan ekki verið hálf sjón.

Annus horribilis
Byrjaði með símtali, öðru símtali og síðan fundi hjá biskupi Íslands miðjan nóvember (sama dag og við Birgir ætluðum að drekka kaffi saman), sem bauð mér starfslokasamning, segði ég mig frá prestakallinu, nánast á stundinni (fékk viku eða tíu daga umþóttunarfrest). Ella mætti ég búast við ærumissi vegna þess hvernig opinber umræða fer fram hér á landi. Á fundinum í skrifstofu biskups var mér mynd af velheppnaðri fyrirsát ofarlega í huga, og sagði honum, prófasti og biskupsritara það. Ég hringdi í Birgi og aflýsti kaffinu. Við höfum ekki hittst nema á annál síðan, því miður.

Ég ákvað að berjast fyrir lífi mínu sem prestur og hafði stuðning prestafélagsins, sem greiddi lögfræðikostnað að upphæð 650þús. krónur alla leið til umboðsmanns Alþingis. Enginn í stjórnsýslunni vildi taka á efnisatriðum máls míns, ekki kirkjan, ekki ráðherra og ekki umboðsmaður Alþingis. Vildi ég sækja rétt minn, yrði ég að stefna biskupsembættinu. Kaus að gera það ekki, enda hef ég ekki nokkrar milljónir til að leika mér með, bara til að sanna eitthvað sem allir vita, án þess að geta búist við að fá upp í kostnað.

Upplifun mín af tilsjónarmönnum mínum var sú að í stað þess að sinna tilsjón ýttu þeir svo um munar á eftir mér út um dyrnar. Lögfræðingur minn sagði mér snemma í ferlinu: “Þú hefur ekkert að sækja á biskupsstofu” og meinti að háttsettir embættismenn kirkjunnar (prófastur, skrifstofustjóri biskups og biskup sjálfur) gerðu allt til að torvelda mér að sitja áfram í embætti. Biskup kallaði mig á fund til sín á afmælisdegi mínum og spurði mig: “Hvernig líður þér? Hvað ætlarðu nú að gera?” Mér brá. “Ertu að pumpa mig?” spurði ég að bragði. Á þeirri stundu var hann yfirmaður, sálgætir og málsaðili að hugsanlegu dómsmáli. Þótt hann segðist ekki vera að sækja sér fóður til framhaldsins, trúði ég honum mátulega. Það er skrýtið að sitja hjá manni, sem getur aðstoðað eða brotið mann og upplifa það að hann er fyrri til að horfa undan.

Reynslunni ríkari af máli mínu lögfesti kirkjuþing þá meðferð sem ég fékk (áföngum  lýsti ég í fyrirlestri á aðalfundi prestafélags Suðurlands, Útskiptanleiki presta). Niðurstaðan er m.a. sú að prestur, sem hefur starf sitt að verja við lok 5 ára ráðningartíma, má t.d. ekki sitja almennan safnaðarfund sem ræðir það hvort auglýsa eigi eða ekki, ef fundurinn vill það ekki. Hann getur ekki áfrýjað áliti úrskurðarnefndar sem verður að fjalla um mál hans, þótt sú nefnd ræði ekki endilega við prestinn, lögfræðing hans eða rannsaki nema formsatriði máls.

Prestsþjónustu minni lauk í júlí á þessu ári (elsku sr. Baldur skrifaði minningargreinina) og hef ég afþakkað beiðnum um um skírnir, giftingar og önnur prestsverk en sálgæslu, enda er hún “ad hoc” og bundin við fólk sem ég vinn með og umgengst daglega. Ég fyrir mitt leyti get ekki hugsað mér að vinna svo mikið sem eitt verk fyrir hina íslensku þjóðkirkju sem prestur úr því sem komið er.

Nýtt upphaf

Mér þótti ráðlegt að hafa mig sem minnst í frammi á annálnum á þeim tíma sem ég þurfti að berjast fyrir kölluninni, en byggði upp plan b, fór í kennaranám samhliða prestsstarfi og lífróðri. Til urðu fleiri blogg og netheimili með nýju lífi. Ég fékk vinnu í Smáraskóla, kenni þar tölvunotkun, er umsjónarmaður tölvukerfis og vefstjóri til sumars, meðan tölvukennarinn er í barnsburðarleyfi. Stefni að útskrift í júní 2008 og líklega framhaldsnámi til M.Ed. í framhaldi af því.

Samfara nýju upphafi í sumarlok á þessu ári held ég fast við gamla siði, blogga um það sem mér finnst skemmtilegt, þ.m.t. trú, biblíuþýðingu og álitamál. Þegar trúna ber á góma eru félagarnir úr vantrúnni sjaldan langt undan, og eru þeir eins og slípiefni. Þótt það taki stundum á, þá er niðurstaðan mín sú að þetta blogg væri sjálfdautt ef þeir væru ekki og fyrir það er ég þakklátur.

Horft til framtíðar
Af hverju í óskupunum ætti ég að blogga? Ef ég horfi yfir farinn veg þá er rúmlega helmingur þess sem ég skrifa aðeins ætlað mér og tiltölulega þröngum áhugamálum mínum. Fjórðungur er umræða um trúmál og smávegis vegna vinnunnar. Enginn nema ég hef áhuga á því, allavega ekki hér á annál.

Ég blogga um trúmál til að halda mér við efnið, staðnast ekki í gömlum hugsunum. Til þess að vit sé í því þurfa að vera viðmælendur. Annall.is gagnast sem tæki til trúar- og guðfræðilegrar umræðu. Vilji ég hugsa upphátt um skólamál ætti ég líklega að gera það annars staðar, t.d. á blogg.is, í kennó eða með því að byggja upp www.meistaranemi.net með WP-MU. Ástæðan fyrir því að ég er ekki kominn á moggabloggið, vísisbloggið eða hlst. er sú að ég er ekki nógu duglegur við þetta til að mér finnist það taka því.

Ég er á því að eitt blogg dugi mér ekki. Ég finn að ég nýti vefinn til samskipta, eftir mig liggja nokkur hundruð færslur og svör víðsvegar á spjallþráðum og bloggum annarra, s.s. www.paradoxology.com, www.apple.is, www.maclantic.com að ógleymdri vantrú.net og hér á annál.is.

Síðan ég komst í kennaranámið, hafa fleiri tól en blogg opnast fyrir mér til samvinnu, hugarkortagerð, google docs, ýmis wiki að ógleymdum youtube, teachertube, flickr, odeo, del.icio.us og iTunesU, það síðasta reyndar er sér á báti enda trauðla samskiptasvæði heldur sýnishorn háskóla.

Nú er svo komið að ég verð að fá mér einn lykil til að halda utan um alla þá staði sem ég sæki á netinu og ákveða svo hvar ég halla höfðinu til næstu ára.

url: http://carlos.annall.is/2007-12-16/annall/

Athugasemdir

Fjöldi 3, nýjasta neðst

carlos.annáll.is - » Uppgjöf @ 27/6/2011 11.54

[...] ætlaði ekki að nota þetta blogg framar. Eftir að prestskölluninni var kæfð fyrir mér, sá ég engan tilgang til að blogga framar um guðfræðileg [...]

Baldurkr @ 28/6/2011 20.07

Skemmtileg upprifjun. Bloggadu endilega sem mest og skiptu thér af kirkjunni! Kv. Baldur

Pétur Björgvin @ 29/6/2011 09.36

Tekur undir með Baldri: Ef þú hefur tíma væri gaman að þú nýttir hann í blogg, alltaf gagn og gaman að lesa bloggfærslur frá þér og þá snörpu umræðu sem oft skapast þegar þú sendir pistil á vef!


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli