carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Australia · Heim · Allt er falt »

Ég ætla ekki að fyrirgefa

Carlos @ 16.00 7/3/09

Ræða flutt á fundi Radda Fólksins á Austurvelli 7. 3. 2009

Ég ætla ekki að fyrirgefa.

Allt frá því að bankar hrundu hér á landi og víðar höfum við fengið að fylgjast með síbreikkandi gjá milli venjulegs fólks og þeirra sem stundum kallast hinir fremstu okkar á meðal. Ég ætla ekki að orðlengja um gjánna, fjölmiðlar gera sér í auknum mæli mat úr henni.

Fyrirsagnir eins og “500 milljarðar til eigenda” (og flutningur fjármagnsins í skattaskjól) eru táknmyndir ástands okkar. Fréttir af átthagafjötrum eiganda smábíls vegna skulda undirstrika hvernig komið er fyrir okkur.

Samfélag okkar er klofið í herðar niður. Annars vegar eru hér þau sem skulda og þau sem skulda meira. Við sem skuldum njótum ekki vafans. Við erum leiguþý, bundin í klafa og átthagafjötra eins og leiguliðar og vinnufólk hér á öldum áður.

Þau sem skulda meira fá að njóta alls vafans. Skuldaðu milljón og þú ert í vanda. Skuldaðu milljarð og bankinn er í vanda. Skuldaðu þúsundir milljarða og þá hverfur vandinn eins og dögg fyrir sólu.

Samfélag okkar er klofið í herðar niður eftir upphæð skulda okkar. Við erum rúin trausti, við sem skuldum ekki nóg vegna þess að við skuldum ekki nóg.

Ég ætla ekki að FYRIRGEFA!

Fyrir tæpum mánuði kom auglýsingamaður í skólann minn. Hann sagði okkur að auglýsingar eru jafnmikilvægar nú í kreppu og áður í velgengni. Hann sagði að auglýsingakaupendur hugsuðu betur um það hvernig þeir auglýsa og auglýsingar eru vandaðri en áður og beinast betur að markhópum. Hann sagði að nú væri gósentíð vegna þess að nú beindist öll orka og umtalsverð þekking auglýsenda að því að hvítþvo þá stjórnmálamenn og -konur sem hafa reynst okkur í besta falli gagnslítil í velgengni og kreppu, þannig að þau næðu kosningu aftur. Hann sagði okkur fyrir sex vikum síðan, að hugmyndasmiðir núverandi ástands myndu ná fyrri styrk í næstu kosningum. Hann sagði að til þess að hjálpa þjóðinni að gleyma ábyrgð þeirra og gjörðum eða aðgerðaleysi, þá hefðu auglýsendur mörg tól í verkfærakistunni. Sjónvarp, útvarp, dagblöð, glansblöð, tölvupósta, bloggara, facebook og fullt af fólki sem þeir borga til að skrifa og tengja og fegra og rífa í og draga oní svaðið. Þeir gera ekkert ólöglegt. En árangurinn er sá að á hverjum þeim stað sem þú og ég drepum niður fæti er búið að galdra það að hvítt verður svart og svart að minnsta kosti fölgrátt núna í kreppunni.

Verkfærin eru öflug og við trúum þeim af því að við þekkjum þau sem halda á þeim. Þetta eru feður okkar og mæður, systur og bræður, frændur og frænkur, vinir og kunningjar. Ekki fara þau að segja okkur ósatt? Samt virka spuni, moðreykur og fagurgali. Við heyrum og tökum mark á fagurgalanum, moðreyknum og spunanum af því að við treystum bloggvinum okkar og facebookkunningjum, vinum og vinkonum, frænkum, frændum, systrum, bræðrum, mæðrum og feðrum okkar.

Ég ÆTLA ekki að fyrirgefa.

Hörð orð frá prestvígðum manni, ekki satt? Ekki eitthvað sem kirkjan boðar. Ekki eitthvað sem tilheyrir bænum okkar. Ég ætla ekki að fyrirgefa. Fer ekki vel í munni sem bæn eða sálmvers. Ég ætla samt ekki að fyrirgefa.

Í þýska sjónvarpinu, á milli auglýsinga eru leiknar teiknimyndir af apa og hesti sem eiga skondin samtöl. Eitt þeirra hefur greypt sér í huga minn:

Hesturinn: Ég segi ekki svo eða svo – til þess að enginn geti sagt að ég hafi sagt svo eða svo.

( Hér má t.d. sjá Pferdle und Äffle stofna bankareikning, hesturinn leggur inn og apinn tekur út)

Við höfum fengið að hlusta á stjórnendur lands okkar, banka og fyrirtækja taka sér þessi orð í munn nánast orðrétt.

“Ég varaði við en ekki var hlustað. Allir lenda í þessu, þetta er alþjóðleg kreppa. Allir tóku þátt í góðærinu, nú þurfa allir að taka þátt í hallærinu”

Orð sem þessi eiga að afsaka og breiða yfir einfalda staðreynd:

Berirðu ábyrgð (og þiggirðu laun í samræmi við hana) þá ber þér að hafa frumkvæði. Frumkvæði er að segja svona eða svona.
Standa svo og falla með orðum þínum.

Við höfum heyrt mikið af vondum afsökunum á undanförnum mánuðum. Ég sá þetta ekki fyrir. Allir voru að gera þetta. Þetta var ekki ólöglegt, þetta átti að vera öruggt, margverðlaunað, margöfundað, margendurtekið í öllum heiminum.

Ég get ekki að því gert en í mínum huga kemur upp mynd af hjörð smádýra sem hleypur eins og lífið væri að leysa í átt að hyldýpi. Allir hlaupa af því að allir hlaupa.

Í Bretlandi hefur ákveðinn banki, ég held í Wales fengið verðlaun fyrir að vera einhver hagsælasti bankinn fimm eða sex ár í röð. Hann starfar dálítið eins og sparisjóðirnir störfuðu hér á landi. Lánaði eingöngu til þeirra sem hann vissi að væru borgunarmenn. Lánaði í héraði og fylgldist vel með. Þessi banki hefur ekki tapað á alþjóðlegri bankakreppu af því að hann gætir hófs og brýtur ekki ellefta boðorðið: Ekki skaltu lána óreiðufólki.

Það að allir voru að gera það hefur ekki þótt góð afsökun til þessa, og því fyrirgef ég ekki. Ég ætla ekki að fyrirgefa. Fólk gat vitað betur en kaus að gera það ekki. Fólk fékk viðvaranir en gerði lítið úr “úrtölumönnunum”. Fólk hljóp og treysti mannfjöldanum, hvort sem samviskan var góð eða slæm. Nei, ég ætla ekki að fyrirgefa, enda ekki hægt að fyrirgefa – fyrr en fólk biður afsökunar.

Ég ætla ekki að fyrirgefa fyrr en ég heyri menn og konur biðjast afsökunar og sýna að þeim er alvara með orðum sínum.

Það er ekki hægt að fyrirgefa bílstjóra sem ekur á 120 km hraða á öfugum vegarhelmingi eftir Reykjanesbrautinni – fyrr en bílstjórinn hefur snúið bifreiðinni við og ekur eins og maður en ekki glanni.

Það er ekki hægt að fyrirgefa einstaklingi sem beitir fjölskyldu sína ofbeldi fyrr en hann leggur af ofbeldið, tekur á málum sínum og biðst afsökunar.

Það er ekki hægt að fyrirgefa fyrr en komin er iðrun, viðsnúningur, ný byrjun.

Annað væri meðvirkni og við höfum verið meðvirk, þjóðin, þannig að okkur finnst auðveldar að kyssa á vöndinn en að taka á þeim sem brjóta gegn almannaheill og setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

Þessvegna finnst mér svo gott að koma hingað, á Austurvöll þar sem menn eins og Hörður hafa veitt okkur hljóðnema og sýnileika, menn eins og Gunnar hafa veitt okkur húsaskjól í Iðnó og Nasa til að hitta þá sem hafa farið með forystu í málum okkur og neytt þá til að viðurkenna að þjóðin, við höfum rödd og frumkvæði sem þeir verða að hlíta, og það oftar en á fjögurra ára fresti!

Þjóðin, þú og ég höfum kallað eftir frumkvæði, ábyrgð og reiknisskilum. Ég ætla ekki að fyrirgefa fyrr en frumkvæði, ábyrgð og reiknisskil hafa náð að gegnsýra samfélag okkar.

Ég krefst þess að frumkvæði, ábyrgð og reiknisskil lifi af næstu kosningar og ég skora á ykkur, Hörður, Gunnar, þig, og þig, og þig og þig, já og þig líka að krefjast þess sama.

Lýðræði er ekki fyrir þá sem vilja gera eins og allir aðrir.

Lýðræði verður ekki til á auglýsingastofum.

Lýðræði verður ekki til í fyrirgefningu þar sem enginn kannast við mistök sín.

Lýðræði verður ekki til þar sem þjóðin gengur undir hugmyndasnauða forystu eins og hlýðinn klár undir drukkinn reiðmann.

Lýðræði krefst þess að við hefjum upp raust okkar.

Lýðræðið krefst þess að við öflum okkur upplýsinga.

Lýðræðið krefst þess að við bendum á þá sem neita að hætta glæfraakstrinum.

Lýðræðið krefst þess að við gleymum ekki og höldum því til haga sem okkar fremstu bræður og systur, frændur og frænkur segja og gera í almannaþágu.

Lýðræðið er ekki fyrir þau sem láta aðra hugsa fyrir sig. Því skora ég á þig og þig og þig – og Gunnar og Hörð og mig að halda kröfunni um reiknisskil, ábyrgð og frumkvæði á lofti. Viku eftir viku og ár eftir ár þangað til þessi hnípna þjóð og meðvirka hefur tekið örlög sín í sínar hendur og hrist af sér ok þeirra sem misfara með auðævi hennar og sóma.

Ég fyrirgef þegar ég er beðinn um að fyrirgefa. En fyrirgefningunni fylgja orð frelsarans: Far þú og syndga ekki meir.

Eða á hreinni og tærri íslensku:

Aldrei aftur!

Aldrei aftur!

ALDREI AFTUR!

url: http://carlos.annall.is/2009-03-07/eg-aetla-ekki-ad-fyrirgefa/

Athugasemdir

Fjöldi 7, nýjasta neðst

Guðrún Hreinsdóttir @ 7/3/2009 19.12

Fín ræða . Við skulum muna þar til við getum fyrirgefið og iðrandi syndarinn sýni einlæga iðrun.

Jakob Þór Haraldsson @ 7/3/2009 19.59

Vel orðað hjá þér! Ég set “bankastjórnendur & bankaeigendur” í hóp þess fólks sem ég tala um sem “atvinnuglæpamenn” (Mafían o.s.frv) – Mafían mun auðvitað aldrei biðjast afsökunar, markmið hennar eru skýr “auðgast sem mest” og láta aldrei “lög & reglur hindra sig” – mér finnst þessir aðilar hafa haft þessu sömu markmið. Þeir sem hafa “skítlegt eðli” kunna vel við sig í Mafíustarfsemi, því það er gríðarlegur kostur ef viðkomandi er “siðblindur”. Hins vegar er maður rosalega “kærleiksríkur karakter” og því “vonar maður innilega” að það finnist hugsanlega 1-4 auðmenn sem “viðurkenni sýn brot, biðjist afsökunar og komi heilshugar að því að láta gott af sér leiða. Við erum svo fámenn þjóð að það verður að loka þessu “svöðusári sem þessir fjárglæframenn” hafa valdið þjóð sinni. Ef þeir stíga ekki þessi spor, þá munu þeir aldrei verða teknir í sátt af samfélaginu. Guð kennir okkur að mátur fyrirgefningar er mikil, en það krefst alvöru iðrunar hjá þeim brotlega. Eins og ég sagði hér að ofan Mafían biðst auðvitað aldrei afsökunar, þeirra eina markmið er að “auðgast” – “what ever the cost” – sorglegt ef þessir 20-50 “fábjánar” ætla að hafa sömu markmið endarlaust í sínu lífi…!

kv. Heilbrigð skynsemi

Hlynur Hallsson @ 8/3/2009 00.27

Frábær ræða Carlos! Takk fyrir að birta hana einnig hér.
Bestu kveðjur að norðan,
Hlynur

Skúli @ 8/3/2009 09.17

Vel mælt.

Lena Rós Matthíasdóttir @ 13/3/2009 09.56

Ég er ánægð með þig… þú kannt að koma fyrir þig orðinu og hefur alltaf gert. Þessi ræða þín er sannleikurinn í hnotskurn og þess vegna tímabær og þörf! Með kveðju, Lena Rós.

Svavar @ 13/3/2009 13.45

Þessi ræða opnaði nýja sýn hjá mér. Hingað til hef ég fyrirgefið botnlaust en nú er botninum náð og siðsvarthol syndaranna verður ekki fyrirgefið fyrr en þeir gefa sig fram og iðrist og þá meina ég IÐRIST.

carlos.annáll.is - » Uppgjöf – Ég mun ekki fyrirgefa! @ 29/6/2011 10.22

[...] Ég mun ekki fyrirgefa fyrr en iðrun liggur fyrir. Hvað um þig? [...]


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli