carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Rekstrarleigubílar og önnur SNAFU · Heim · Bensínverð hér og á meginlandinu »

Lækkanir í Bretlandi, hækkanir hér

Carlos @ 18.12 24/5/09

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst það vægast sagt nokkuð sérsakt að matarverð skuli lækka í Bretlandi á sama tíma og það hækkar á Íslandi um 20-30%. Kann einhver skýringar á því? … Ríkisstjórn sem leyfir slíku að gerast án þess að grafast fyrir um hvað valdi þessu sérkennilega þróunarferli á samdráttartímum og bregst við er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu. – Jón Magnússon á bloggi sínu í dag

Ég reyni að svara. Hér hefur verið landlægt hátt verð á allri vöru um langan tíma. Með löngum tíma á ég við fleiri ár en ég man eftir mér og nálgast ég þó fimmtugt. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa leyft þessu að viðgangast, þrátt fyrir að sumar ríkisstjórnir höfðu reynt að stýra álagningu á vöru með mismiklum árangri.

Ég held að engin íslensk ríkisstjórn hafi nokkurn tímann haft bolmagn til að brjóta á bak aftur einangrun landsins og einokunarverslun þá sem hér viðgengst (ef ekki í orði þá á borði). Íslendingar borga uppsett verð. Jafnvel þótt varan sé helmingi ódýrari á markaðinum í Kaupmannahöfn eða Frankfurt.

Fram til þessa hefur hluti þjóðarinnar því farið í innkaupaferðir til Glasgow og St. Paul til að gera góð kaup. Nú er þeirri leið lokað vegna afglapa ykkar í tíu ár. Menning síðustu 10 – 15 ára bætti gráu ofan á svart með því að ofurselja almenning græðgi þeirra sem peningana og auðlindirnar hafa.

Stjórnmálamenn okkar gáfu DNA, fiskinn, orkuna og framtíðina mönnum sem þeir handvöldu til að ræna okkur. Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking fremst í flokki. Þeir létu af sýndarlýðræðinu og komuð á þjófræði.

Ein ríkisstjórn getur ekki snúið þeirri þróun við á hundrað eða tvöhundruð dögum.

url: http://carlos.annall.is/2009-05-24/laekkanir-i-bretlandi-haekkanir-her/


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli