carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Heimilin eða fjármagnseigendur? · Heim · Jerk Chicken – kjúklingarnir hans afa »

Steinum kastað úr glerhúsi

Carlos @ 09.21 30/5/09

Þingmaðurinn Einar K. Guðfinnsson kvartar yfir ógagnsæi og óþarfa þingmálum á bloggi sínu í dag. Hann hittir naglann á höfuðið með báðum höggum hamarsins. En samt finnst mér rödd hans fölsk. Af hverju skyldi það vera?

Fyrir það fyrsta hefur leynd og ógagnsæi einkennt íslensk stjórnmál um langan tíma. Hann var sjálfur gerandi í þeirri menningu. Í annan stað leyfir hann ekki athugasemdir á bloggi sínu, þannig að sauðsvartur almenningur verður að færa athugasemdir í sín eigin blogg til að tjá sig um málið (þar minnir hann á mávaskítsforstjóra). Í þriðja lagi gerir hann einfalt mál og sjálfsagt tortryggilegra en þörf er á.

Þjóðin er að sönnu ekki einu máli um aðild landsins að ESB. Sannarlega á þjóðin rétt á því að kjósa um það hvort hún gengur í þau samtök eða ekki. Hún hefur auk þess rétt til þess að ræða um kosti þess og galla frá öllum hliðum.

Ekki er hægt að beita flokksaga á umræðuna og óeðlilegt er að hindra að ferlið fari í gang frá Alþingi. Af hverju? Vegna þess að Alþingismenn eru sjálfir á báðum áttum í öllum flokkum og Alþingi skulda þjóðinni heiðarlegar umræður um málið. Kannski er Einar K. Guðfinnsson hræddur við að þjóðin ákveði sín eigin örlög, en láti ekki ráðherra og alþingismenn um það.

url: http://carlos.annall.is/2009-05-30/steinum-kastad-ur-glerhusi/


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli