carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Steinum kastað úr glerhúsi · Heim · Fagsmökkun kaffis »

Jerk Chicken – kjúklingarnir hans afa

Carlos @ 17.01 31/5/09

Það var ekki oft sem afi eldaði, en þegar hann gerði það, var það eftirminnilegt. Maturinn sem stendur upp úr minningunni voru útigrilluðu kjúklingarnir hans. Þeir voru svona “finger lickin’ good” og hefur mér aldrei tekist að ná þeim, því að hann dó frá uppskriftinni.

Í stúdentsveislu Unu Sigtryggs Baldurssonar fékk ég að smakka Jerk chicken sem vöktu upp dormandi minningar um kjúklinginn hans afa. Skemmst frá því að segja, ég lagðist í sort(ir).

Smá leit á netinu skilaði mér þolanlegri uppskrift sem ég prófaði. Hér fyrir neðan er önnur, betri, sem ég á eftir að prófa. Hún er af kryddblöndunni sem kjötið er látið liggja í yfir nótt áður en gengið er til grills daginn eftir. Fengin héðan og leggst nógu vel í mig til að ég færi hana hér með til bloggs.

Tímjan, allrahanda, afburðasterkt pimiento (Scotch bonnet), og hvítlaukur leika aðalhlutverk í uppskriftinni. Notist á kjúkling, svín, naut, geit eða grænmeti.

Undirbúningstími 5 mínútur. Hvíldartími í kryddlegi 12 tímar eða svo.

Innihald:

 • 1 dl allrahanda
 • 1 dl púðursykur
 • 6 – 8 hvítlauksrif
 • 4 – 6 sterkir piparávextir (Scotch bonnet eða Habañero)
  Varúð: Scotch bonnet eða habañero piparinn eru u.þ.b. þúsund sinnum sterkari en þessi venjulegi rauði pipar sem við fáum út úr búðum hér. Þannig að:

  notið einnota hanska -nuddið EKKI augun þótt þið hafið þvegið hendurnar

 • ein matskeið þurkkað eða tvær matskeiðar fersk tímjan
 • tvö búnt vorlauks
 • ein teskeið kanil
 • hálf teskeið múskat
 • salt og pipar eftir smekk
 • tvær matskeiðar sojasósa til að bleyta upp í þessu öllu saman

Svona er farið að:

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið. Hægt er að nota allrahanda ber ef þau skyldu vera við hendina (ólíklegt á Íslandi), en þá þurfa þau að gefa af sér jafnmikið og hálfur bolli af muldum berjum. Mestu máli skipta allrahanda og pimiento piparinn í sósunni.

Hægt er að geyma hana endalaust í ísskáp og má gjarnan bæta við uppskriftina piparávexti og hvítlauk eftir smekk.

Kryddinu er nuddað í kjötið og því komið undir húð kjúklinga og inn í fituna á svínakjöti. Ef fiskur er notaður, þá þarf hann að vera þéttur í sér.

Látið liggja yfir nótt. Grillið við vægan hita, helst yfir kolaeldi. Kjöt er skorið í bita og borið fram með þéttu brauði og bjór (helst frá “eyjunum” – Stripe frá Jamaika, Corona frá Puerto Rico eða Mexico)

Nokkrir aðferðafræðilegir þankar:

 • Andstæða sterks pipar er sætan í sykrinum. Því sterkari matur því meiri sæta til að milda hann.
 • Þurrkryddun og blaut marinering er kallað eftir í sumum uppskriftum. Þessi hér fyrir ofan er sambland beggja.
 • Grillið og grillunin er aðalatriðið á eftir krydduninni. Ég reikna með að hæg grillun yfir kola eða harðviðareldi gefi skemmtilegasta bragðið. Tunnugrill með loki frekar en opið til að fá reykinn.
 • Jerk er stytting á Jerky, þurrkun. Álitið er að þessi kryddaðferð eigi rætur að rekja til Norður Afríku (wikipedia). Jerky er lík okkar harðfiski nema hvað hér leikur kryddið mikið hlutverk.
 • Sterkt bragðið gerir mikið kjötát óþarft og leiðir til þess að maður borðar sig frekar saddan á brauði eða hrísgrjónum.

Fleiri Jerk uppskriftir:

url: http://carlos.annall.is/2009-05-31/jerk-chicken-kjuklingarnir-hans-afa/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Skúli Páls @ 31/5/2009 18.40

Takk fyrir þetta. Svona ætla ég að prófa.


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli