carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Uppgjöf · Heim · Uppgjöf – Ég mun ekki fyrirgefa! »

Uppgjöf – WWJD

Carlos @ 15.37 27/6/11

,

Öxin er þegar lögð að rótum …

lætur höfundur Mattheusarguðspjalls Jóhannes skírara segja við góða, trúaða fólkið þess tíma (Mt. 3). Verðskuldar góða, trúaða fólkið okkar tíma svoleiðis yfirhalningu? Þverrandi hlutdeild þjóðarinnar í Þjóðkirkju Íslands ætti að gefa vísbendingu. Þegar ég hóf prestskap var umræða um trúfélagaaðild þjóðarinnar hundleiðinlegt og næsta óþarft umræðuefni. 93% þjóðarinnar var í Þjóðkirkjunni og hinir voru kaþólskir, lútherskar fríkirkjur, hvítasunnumenn. Hinir sáust næstum ekki á kökuritum biskupsritara.

Kirkjan var virt í samfélaginu og nánast enginn hnýtti í hana utan nokkrir hófstilltir gagnrýnendur. Að vera prestur var að vera treyst, sérstaklega í litlu sveitasamfélagi. Allar stofnanir samfélagsins stóðu embættismanninum opnar til góðra verka.

Langholtskirkjumálið, biskupsmálið, hjúskapur samkynhneigðra, biskupsmálið upprisið og nokkur hneykslismál utan Þjóðkirkju (en innan kristinna trú- og meðferðarfélaga) urðu til að breyta nokkru. Fækkað hefur í Þjóðkirkjunni um 13% hið minnsta á innan við 20 árum. Sumum finnst þetta eðlileg þróun, en stafirnir á veggnum móta þetta:

Rotnir ávextir – þverrandi uppskera.

Öxin er þegar reidd að rótum trésins, og aðeins ónýtur stjórnandi hugsar eins og Chamberlain (eða konungur Júda í Gamla testamenntinu):

Þetta sleppur meðan ég þjóna.

Ég hef ekki þjónað sem prestur í íslenskri kirkju síðustu þrjú ár. Ég er utanvið hringiðuna. Mér rennur samt blóðið til skyldunnar.

1) Biskup Íslands hefur komið sér í þá aðstöðu að hafa helming presta sem vilja að hann fari frá skv. nýlegri skoðanakönnun DV meðal þeirra. Þetta kemur kannski á óvart og þó. Hann var búinn að búa til djúpa gjá milli sín og okkar.

Fyrir þremur árum átti ég í harðri orðasennu við embættismann nærri biskupi um verk hr. Karls. Sá brást reiður við óvæginni gagnrýni minni, sneri frá, sneri sér að mér og sagði:

“Veistu ekki hvað biskup hefur gert fyrir þessa presta?”

Þessa presta. Við og þeir. Vér og þessir. Ekki gott. Bakland biskups meðal vígðra þjóna, sem þó kusu hann á biskupsstól þynnist óðum.

2) Þjóðkirkjan hefur hægt og sígandi misst úr höndum sér þá ímynd, að hún sé umburðarlynd, sanngjörn og umfram allt opin fyrir alla (óháð reyndinni, sem er sú að allir geta þegið þjónustu í kirkjunni, óháð trúfélagsaðild og fyrri störfum). Hún hefur ekki staðið sig í trúvörn, hefur farið glannalega í ýmis mál sem rétt hefði verið að hugsa vandlega áður en framkvæmt var og varða samskipti við trúlausa, annars þenkjandi og eru sjálfsagðir starfshættir í fjölmenningarsamfélagi. Kannski slagorðið “boðandi” hafi villt einstaka kirkjumanni og -konu sýn þannig að þeir skemmdu meir en naut skemmir flag.

Fíllinn í herberginu er náttúrlega sá að

3) æðstu stjórnarnefndir og ráð kirkjunnar með biskupinn í fararbroddi hafa reynst löglegir (að mestu) þegar kemur að kynferðilsegu ofbeldishneysklis hr. Ólafs, en gersamlega á skjön við gott siðferði . Þá eru starfshættir sömu aðlila langt frá því til fyrirmyndar. Af hegðun kirkjunnar manna undanfarnar vikur eftir birtingu rannsóknarskýrslunnar sýnist mér helst að þeir vilji stinga þessu óþæginlega undir stól og láta fenna yfir.

Sumartíminn hentar vel til þess, enda Íslendingar duglegir að grilla og njóta góðs veðurs, ferðalaga og gleðilegra mannlífs.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt niðurstaðan af öllu þessu yrði sú að hluti Þjóðkirkjunnar í trúarmengi Íslendinga yrði nokkru minna en 60 – 80% áður en núverandi biskup verður að hætta fyrir aldurs sakir.

Auðvelt og alltof ódýrt er að kenna hr. Karli um allt sem aflaga fer í samskiptum kirkju og þjóðar, hvað þá einstakra presta og sóknarmanna. Samt er hægt að segja með góðum rökum, að fjarað hefur undan á hans vakt og stjórnunarmenning sú sem hann hefur liðið hjálpar ekki heldur skaðar kirkjuna.

4) Ræða forseta Kirkjuþings á aukakirkjuþingi, umræður kirkjuþingsmanna, viðbrögð hr. Karls eftir útkomu rannsóknarskýrslunnar benda til þess að yfirstjórn kirkjunnar hefur glatað þjónustulund sinni og stefnir aðeins að sjálfsviðhaldi. Sé það raunin, skiptir ekki máli hve gott fólk velst í rannsóknarnefndir, fagráð eða hve góðar reglur kirkjan setur sér.

Fari orka kirkjustjórnar eingöngu í spunaleiki, hafa þeir að sönnu verðskuldað það að kallast fræðimenn, fariséar, saddúkear og hræsnarar.

Slíkri kirkju getur enginn heilvita og heiðarlegur maður tilheyrt og þjónað. Frekar en að gefast upp ber því hverjum kristnum manni að finna annan og svo annan þangað til að nógir finnast sem setja ónýtri kirkjustjórn stólinn fyrir dyrnar.

Það myndi Jesús gera!

url: http://carlos.annall.is/2011-06-27/uppgjof-wwjd/

Athugasemdir

Fjöldi 16, nýjasta neðst

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 27/6/2011 20.21

Þú veist eflaust meira en ég um margt af því sem þú skrifar um, þar sem þú hefur reynslu af því að vera inni í miðri hringiðunni (amk í henni), en ein athugasemd til að byrja með:

[Þjóðkirkjan] hefur ekki staðið sig í trúvörn,…

Það er nú hægara sagt en gert. Ef maður ætlar að verja eitthvað, þá verður maður fyrst að vita hvað það er sem maður ætlar að verja. Geir Waage benti einmitt á það á einhverju kirkjuþingi, að það væri miklu meiri munur á trú prestanna í Þjóðkirkjunni heldur en á milli hinna ýmsu kirkjudeilda. Ég held að “ofur-frjálslyndir” prestar hafi afskaplega lítið sameiginlegt við “KFUM-presta”. Kannski skil ég ekki hvað þú átt við með “trúvörn”, en ef ég skil þig rétt, þá finnst mér þetta vera ástæða þess að Þjóðkirkjan getur eiginlega ekki stundað trúvörn.

En sem utankomandi aðili sem gleðst yfir því að sjá fækka í henni, þá á ég afskaplega bágt með að skilja hvað biskupinn þinn er að hugsa. Þó svo að hann telji að hann hafi í raun ekki gert neitt af sér (og þó svo að sú sé raunin), þá hlýtur einstaklingur sem setur velferð Þjóðkirkjunnar í fyrsta sæti að sjá að það sé henni fyrir bestu að hann stígi til hliðar. Varla telur hann sig vera svo ómissandi? En ég er amk mjög ánægður með Karl :D

Eitt smáatriði, varðandi það að allir geti þegið þjónustu Þjóðkirkjunnar, þá kemur fram á heimasíðu hennar að annað brúðhjóna verði að vera skráð í Þjóðkirkjuna. Mér finnst vafasamt að koma með þessa fullyrðingu án fyrirvara, þar sem að hjónavígsla er ansi stór hluti af “þjónustu” kirkjunnar að mínu mati, og jafnvel þó svo að margir eða allir prestar fari ekki eftir þessari reglu.

Carlos @ 27/6/2011 20.49

annað brúðhjóna verði að vera skráð í Þjóðkirkjuna

Þetta eru fréttir fyrir mér! Ég hélt að menn gætu notið þjónustu Þjóðkirkjunnar óháð skráningu! Ég verð víst að endurskoða fleira en ég hélt.

Trúvörn er í mínum huga tvíbent sverð. Ef maður þarf að beita henni er það annaðhvort af því að samtal er í gangi og maður þarf að færa rök fyrir afstöðu sinni. Hún þarf ekki að vera á einn veg og ekki út frá sömu forsendum, því að guðfræðin er ekki nákvæmnisvísindi og því hjákátlegt í mínum hug að hugsa viðmælanda minn sem flóni, bara af því að hann er mér ekki sammála.

Trúvörnin sem ég vildi sjá kirkjuna mína standa fyrir eru heilsteypt verk, ferli sem eru gegnsæ og heiðarleg, virðing fyrir skoðunum annarra og þjónusta við alla sem sækja til hennar óháð lífskoðun og -skráningu. Augljóst er að orð Austin Powers

And I want a golden toilet. But that’s not happening!

eiga hér við. Þannig að vörn kirkjustjórnar er spuni, sem auðvelt er að sjá í gegnum, nú þegar fólk hefur séð glitta í innri verk hennar. Fyrir manni eins og þér, sem hefur hagsmuni af því að Þjóðkirkjan minnkar, er hroki kirkjustjórnar náttúrlega himnasending. Fyrir mér sem á þó einhverja hagsmuni að gæta, þó ekki nema af því að ég þjónaði innan hennar, er þetta annaðhvort skilaboð um að hypja mér annað eða að stíga upp á sápukassann og gera það sem ég get til að vekja athygli á því að

keisarinn er nakinn!

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 28/6/2011 13.21

Þetta eru fréttir fyrir mér! Ég hélt að menn gætu notið þjónustu Þjóðkirkjunnar óháð skráningu! Ég verð víst að endurskoða fleira en ég hélt.

Hérna er þetta:

Það sem greinir kirkjulega hjónavígslu frá borgaralegri er fyrst og fremst ákveðin afstaða brúðhjónanna til kristinnar trúar . Þetta er kristin hjúskaparstofnun. Þessvegna verður amk annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni og gert er ráð fyrir því að ef hjónin eignast börn að þau verði alin upp í kristinni trú. Kirkjubrúðkaup er því grundvöllur að kristnu heimili.

Svo skil ég ekki alveg hvað þú átt við með trúvörn. Svo ég komi með dæmi, þá skil ég ekki hvernig kirkjan sem slík ætti t.d. að verja friðþægingarkenninguna, þar sem að margir prestar trúa henni líklega ekki.

En mér finnst hljóma eins og þú saknir þess að Þjóðkirkjan stundi opna, heiðarlega og málefnalega umræðu um trú. Ég get alveg tekið undir það, ef þú átt við eitthvað þannig lagað.

Carlos @ 28/6/2011 23.13

mér finnst hljóma eins og þú saknir þess að Þjóðkirkjan stundi opna, heiðarlega og málefnalega umræðu um trú. Ég get alveg tekið undir það, ef þú átt við eitthvað þannig lagað.

Mér finnst Þjóðkirkjan þurfa að hegða sér eins og kirkja, sem er tilbúin til að vera opin, heiðarleg og málefnaleg. Í því atferli felst sú trúvörn sem ég get samþykkt. Hitt er heilaleikfimi sem skilar hugsanlega skilningi og skerpir á andstæðum.

Var búinn að finna þetta og er svolítið hissa að þessi krafa er ekki gerð þegar fólk fermist, skírist eða er jarðsett. Veit ekki hvernig stendur á þessu en minnist þess að aðrar kirkjur gera kröfu um að menn séu í kirkjunni ef þeir vilja þiggja þjónustu hennar … å pyt!

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 2/7/2011 20.56

Ég verð að segja að ég átti mig enn ekki alveg á því hvað þú átt við þegar þú segir að Þjóðkirkjan hafi ekki “staðið sig í trúvörn”. Ertu að tala um að verja m.a. þá veraldlegu stöðu sem Þjóðkirkjan hefur? Ertu að tala um að færa rök fyrir trú Þjóðkirkjunnar? Eða ertu bara að tala um að hún hefur ekki staðið sig nógu vel í því að stunda alvöru umræðu um trúna?

Carlos @ 3/7/2011 07.56

Síðasta kostinn.

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 4/7/2011 13.33

En vilja prestarnir almennt “alvöru umræðu um trúmál”? Það fyrsta sem mér dettur í hug er að það myndi opinbera hversu ótrúlega ósammála þeir eru í flestu og það veldur bara veseni (með tilheyrandi úrskráningum).

Svo að ég komi með dæmi, þá setti ríkiskirkjuprestur í fyrra inn predikun á trú.is þar sem hann boðar trú á ósekikulleika biblíunnar. Ég heyrði ekki píp í einum einasta presti. Það er ekki vottur af sjálfsgagnrýni (nema það hafi verið rætt um þetta á prestapóstlistanum), amk ekki neitt sem sést.

Carlos @ 6/7/2011 18.30

Þetta er ekki aðeins spurning um það hvernig sumir prestar tala um trúmál.

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 6/7/2011 21.00

Ég var ekki að benda á þetta til þess að segja “Sjáðu hvað þessi prestur segir vitlausa hluti.”, heldur finnst mér þetta gott dæmi um hvað það vantar algerlega gagnrýna umræðu hjá prestunum. Hérna er prestur Þjóðkirkjunnar að boða trúarskoðanir sem maður myndi vona að þekktust ekki hjá háskólagengnum þjóðkirkjuprestum. Og það eru engin viðbrögð. Mér finnst þetta frábært dæmi um skort á alvöru umræðu hjá Þjóðkirkjunni.

Ef þú ert að hugsa um eitthvað allt annað en ég, þá væri gaman að heyra það.

Carlos @ 7/7/2011 17.57

Ef maður leyfði sér að fara eftir bókinni, ætti það að vera biskups að gera athugasemdir við kórvillur presta í kenningarmálum. Prestar takast sjaldnast á um trúmál nema eitthvað meira liggi við, sbr. umræður um hjúskap samkynhneigðra og hvernig lík eiga að snúa í kirkju (djók).

Ég hugsa að menn þekkist of náið og vel til að nenna að leiðrétta kórvillur opinberlega og þar af leiðandi er nánast aldrei rætt um guðfræði hvað þá hvað snýr upp eða niður í trúmálum. Geri menn það mæta menn yfirleitt þögn eða þetta fer í einhverskonar hafarí. Kannski er stéttin of mörkuð af því sem Laxness sagði í Innansveitar króníkunni, um það hvernig bændur í Mosfellsdal brugðust við tilskipun frá kóngi að leggja niður Hrísgerðiskirkju og sameina hana við Mosfellskirkju … með hundraðára þögn til að byrja með.

Við erum markaðir af sama sauðshætti. Nennum ekki að taka almennilega á trúmálum. Því miður.

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 10/7/2011 13.54

Formaður PÍ virðist vilja halda umræðu um kirkjupólitík (efast um að þetta eigi við um trúmálarökræður) í innri hringnum:

En við verðum líka að finna þessari gagnrýni farveg í umræðu okkar á milli en ekki út á við þar sem útá við breytir hún engu í þjóðkirkjunni heldur hvetur aðeins fleiri til að yfirgefa skipið.

En já, það að þeir þekkist eitthvað gæti útskýrt þetta eitthvað. En mér finnst eitthvað meira búa að baki. T.d. finnst mér undarlegt að kirkjan skuli ekki hafa spjallborð, miðað við hvað það er oft talað um að “þvertrúarleg umræða” sé mikilvæg. Að prestar þekkist vel útskýrir það ekki.

Carlos @ 10/7/2011 18.36

Við búum annarsvegar við einhverskonar biskupsræði þar sem biskupinn á að vera biskup en ekki bara fremstur jafningja. Spurning hvað prestur getur sagt án þess að styggja hann með orðum sínum. Síðan er það einnig að menn vilja eða nenna ekki að hnýta í hver annan út af guðfræði. Síðan er þessi einingarkrafa sem er hluti af einhverri kirkjuómynd sem aldrei getur virkað en allir þykjast styðja. Prestar tala ekki saman á spjallborðum en nota þess í stað póstlista. Þar tekst á lof og last en sjaldnast um prédikanir og einstaka ummæli um þær. Því miður.

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 11/7/2011 18.07

Jamm, ótti við afleiðingar af gagnrýni spilar eflaust líka hlut. Merkilegt að hugsa til þess að prestar “nenni” ef til vill ekki að hnýta hver í annan út af guðfræði, á þetta ekki að vera hugsjónarfólk sem telur trú kirkjunnar vera mjög mikilvægan hlut? ;)

Prestar tala ekki saman á spjallborðum en nota þess í stað póstlista. Þar tekst á lof og last en sjaldnast um prédikanir og einstaka ummæli um þær. Því miður.

Já, ég veit af póstlistanum. Það sem ég var að hugsa um var að ef kirkjunni er alvara með það að vilja opnar umræður um trúmál, þá er undarlegt að hún skuli ekki hafa spjallborð, þar sem prestar gætu auðvitað líka tjáð sig.

Carlos @ 11/7/2011 20.57

Ég held að tru.is átti að verða vettvangur umræðu, en flestir prestar taka ekki eða hafa ekki tíma til að stunda hana þannig að vel sé.

Hjalti Rúnar Ómarsson @ 21/7/2011 19.35

Jamm, og svo er oftar en ekki lokað fyrir athugasemdir.

En, svo er þetta ekki bara spurning um að hafa umræðu fyrir prestana (eiga ekki allir að vera prestar samkvæmt ykkur? ;) ). Er ekki gífurlegur fjöldi leikmanna sem vill ræða þessi mál sem hefur ekki aðgang að prestapóstlistanum?

Carlos @ 21/7/2011 21.04

Prestapóstlistinn er lokaður af því að einhvers staðar verða menn að fá að gaspra án þess að það dragi dilk á eftir sér. En menn ættu ekki að birta prédikanir öðru vísi en að bjóða upp á umræður um þær. Minna má það nú ekki vera.


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli