carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Uppgjöf – WWJD · Heim · Art of War »

Uppgjöf – Ég mun ekki fyrirgefa!

Carlos @ 10.21 29/6/11

, , , , ,

… syndga ekki framar
# #
Merkilegt þetta, með afsökunarbeiðni og fyrirgefningu. Í kjölfar hrunsins var okkur uppálagt af (kristnum) ráðamönnum (undir áhrifum kristinnar trúar), að dæma ekki ). Þjóðin skellti við skollaeyrum, streymdi út á götu og heimtaði nýja tíma. Sá sem fór fram á mildi í dómum þjóðarinnar mun nú einn fyrrverandi ráðamanna koma fyrir landsdóm.

Frá því að verk þeirra sem prýða efstu lög fæðukeðjunnar hér á landi stóðust ekki eldraunina, hafa menn leitað að leiðum til að ná sáttum við þjóðina án þess að rugga gömlum fleyjum of mikið. Þöggun og hylming er erfið á tímum Google og archive.org sem fáu gleymir, kærkomnar viðbætur við timarit.is og Landsbókasafn! Kristin tugga, klisjan um að dæma ekki svo maður verði ekki dæmdur sjálfur er þá dregin fram í öllum sínum myndum.

Ég segi tugga og meina klisja vegna þess að farið er fram á meðvirkni og að þjóðin veiti þeim sem að kjötkötlunum sitja ódýra náð. Menn segja:

Ef ég hef með nokkru gerst sekur biðst ég afsökunar

eða:

Ef ég hef ekki staðist væntingar, biðst ég afsökunar

eða:

Ég bið öll fórnarlömb stofunar minnar, hver sem þau eru, afsökunar

Manneskjan í mér, sem var alin upp í fyrirlitningu á kirkjulegri hræsni, spyr sig hvað þessar yrðingar eiga að þýða og hverju þær eiga að áorka.

Byrjum á vandanum. Orðrómur heyrist, að (þá) verðandi biskup Íslands hafi hugsanlega misbeitt sér við konur. Þeir sem að málinu koma eru beggja vegna borðsins og vilja helst að vandinn hverfi. Gera minna en þeir hefðu gert ef meintur brotamaður hefði ekki verið einn þeirra og meintur glæpur ekki verið fyrndur. Hafa síðan meira en áratug til að bæta hjá sér starfshættina (sem þeir gerðu að einhverju leiti) og … klikka aftur þegar hæst þurfti að hóa! Hægt hefði verið að fyrirgefa fyrra klúðrið, en hið síðara?

Item. Í ljós kemur að vandamál kaþólsku kirkjunnar með einstaka starfsmenn teygir anga sína til Íslands. Núna, eftir að starfsfólkið sem braut gegn börnum sem því var treyst fyrir er dáið, vilja menn komast að hinu sanna og svona til að falla ekki í sömu PR gryfju og kirkjustjórn íslensku þjóðkirkjunnar, biðst biskup kaþólskra öll fórnarlömb sinnar kirkju, hver sem þau eru afsökunnar, fyrirfram.

Heildsöluafsláttur á fyrirgefningu?

kyrie eleison

er sungið í hverri messu í öllum kirkjum sem viðhafa forna kirkjusiði. Þetta er bæn hinna tíu líkþráu um að Jesús miskunni sér yfir þá og lækni þá af líkþránni. Hann gerði það, sendi þá í (læknis)prestsskoðun, þeir urðu heilir. Einn þeirra snéri aftur til Jesú og þakkaði fyrir.

Faðir blessaðu mig því að ég hef syndgað

eru orð sem maður tekur sér í munn þegar maður gengur til skrifta. Síðan telur maður upp og gengst við ábyrgð sinni á misgjöðum sínum.

Það er lélegur skriftarfaðir sem gútterar skriftir sem ganga út á “ég hef hugsanlega kannski gert eitthvað ljótt” og fer síðan eins og kötturinn í kringum heitan grautinn án þess að nefna það sem rangt var. Skriftir eru ekki fyrir siðblinda, því að maður verður að geta orðað og séð að maður gerði rangt.

Það eru kaup á óútfylltum aflátsbréfum, að biðjast afsökunar á einhverju sem maður hefur kannski gert og að standast ekki (e.t.v. óeðlilegar) væntingar sem annað fólk hefur til manns (skárri er það nú tilætlunarsemin á *þessu* fólki!).

Bæði kirkjur mótmælenda og kaþólskra eru orðnar sammála um að óútfyllt aflátsbréf og ódýr náð eru ekki sakramennti kirknanna. Ég sem vígður þjónn kirkjunnar myndi aldrei taka þátt í því skúespili sem báðir biskupar elstu kirkna Íslands hafa leyft sér að bera á borð fyrir þjóðina. Þeir hefðu betur lært fjögur orð af fv. ráðamanni á Íslandi, sem lykta af heiðarleika:

Maybe I should have

Rugl?
Ég veit svo sem alveg (og þú lesandi minn líka) af hverju æðstu ráðamenn kirknanna þora ekki að iðrast þannig að mark er á takandi. Þeir eru hræddir við lagalegar afleiðingar. Að játning nú skerði rétt þeirra til réttlátrar meðferðar fyrir dómi, þar sem dómarar dæma í máli þeirra. Falli þeim dómur í óvil, þurfa þeir e.t.v. að víkja úr embætti, þótt engin hefð sé fyrir slíku hér á landi. Dálítið fyndin staða, þegar allt kemur til alls.

Með öðrum orðum verða þeir að velja milli þess að vera sýkn saka og að vera fyrirgefið! Fyrirgefningin fæst nefnilega ekki á útsölu og náðin er dýr, þótt ekki sé hún munaðarvara.

Guðfræðingar sem fatta þetta ekki, falla á mínu prófi með minna en 4.9. Maður getur reyndar komist til metorða í kirkjum án þess að skora hátt á prófum.

Afruglari!

In war-time, truth is so precious that she should always be attended by a bodyguard of lies.

#
Við þurfum að ákveða okkur hvort er dýrmætara. Sannleikurinn upp á borð eða stöðugleikinn, business as usual og allt það, óháð því hvort okkur líkar við eða mislíkar persóna og gjörðir þess sem braut af sér og/eða stóðst ekki væntingar. Þetta er nógu flókið þegar kemur að veraldlegum málefnum eins og hvort fórna þurfi einum fv. forsetisráðherra (í stað heils herbergis af stjórnmálamönnum og -konum) til að réttlætiskennd okkar sé svalað örlítið.

Þegar kemur að kristinni kirkju þá er málið alvarlegra og einfaldara! Iðrun, fyrirgefning syndanna og náð Guðs og sátt við menn er hjarta trúarinnar. Án þess gengur ekkert. Þessvegna var kirkjan siðbætt á sextándu öld! Lúther, Calvin og allt það. Þegar kirkjuhöfðingjar kjósa veraldlega líkn framyfir trúarlega gerist a.m.k. þetta:

  • Kirkjan skiptist í hefðarkirkju og almúgakirkju þar sem höfðingjunum líðst sýndarréttlæti en almúgur þarf að ganga alla leið (sjá Mt. 7.1nn)
  • Ódýr náð eða meðvirkni leggst eins og þykkt teppi á trúareldinn og kirkjan missir þann hita sem hún þarf til að hreinsa samtíð sína af því bulli sem þrífst (sjá Op. 3.14nn)
  • Heilagasta prinsíp og raison d’être kirkjunnar er orðið að kúgunartæki til að viðhalda establismentinu
  • Kirkjan hættir að vera fyrirmynd þess sem hún boðar – hættir að vera verð þess að kallast kirkja og missir því meðlimi sína annað. Fólk er nefnilega þegar kemur að innstu rótum trúarinnar ekki fífl!

Leiðtogasamkunda kristinnar kirkju sem klikkar á þessu, er ekki þess verð að leiða kirkjuna. Leyfi mér að lokum að segja við þá kollega mína sem enn nenna að hlusta á mig (nota stíl Óla Ágústsonar, hið feitletraða er þó ekki hans stíll heldur algerlega það sem í mínu hjarta býr):

Þetta er ekki flókið, krakkar!

Annað hvort takið þið þátt í útför kirkjunnar sem kirkju eða þið hysjið upp um ykkur hempurnar, safnið liði og setjið ekki bara biskupi stólinn fyrir dyrnar heldur öllu helvítis apparatinu! Því helvítis apparat er það og helvítis skal það heita.

Ég mun ekki fyrirgefa fyrr en iðrun liggur fyrir. Hvað um þig?

url: http://carlos.annall.is/2011-06-29/uppgjof-eg-mun-ekki-fyrirgefa/

Athugasemdir

Fjöldi 9, nýjasta neðst

Pétur Björgvin @ 29/6/2011 11.31

Já sæll. Carlos þetta er beittur pistill – til hamingju með hann. Ég er stórhrifinn því að hann gerir mig orðlausan – og botninn:

Þetta er ekki flókið krakkar!

fær mig til að roðna, því ég verð að viðurkenna að ég þarf að lesa þennan pistil þinn sjö sinnum í þeirri von að skilja dýpt hans og átta mig á hvernig hann nýtist mér í rýni til gagns. Áfram svona.

Hulda @ 29/6/2011 13.50

Sæll. Ertu að setja karlaveldisstjórnunarháttum, sem mergsjúga allt þjóðfélagið, stól fyrir dyrnar?

Carlos @ 29/6/2011 14.15

Mér rennur til rifja, að kirkja sem hefur játningu misgjörða og iðrun þeirra að grunni, skuli líða hálfkák og yfirklór úr hendi æðstu yfirmanna sinna í þeim efnum. Mér rennur til rifja að æðstu yfirmenn kirkjunnar gera út á það að við hin eigum að fyrirgefa og kóa með þeim. Ég vil að sómakært kirkjufólk safni liði og setji þeim stólinn fyrir dyrnar.

K Sig @ 29/6/2011 17.11

Góður pistill hjá þér Carlos, tími til kominn að fá málefnalega vakningu í þessi mál, en því miður verður það líklega svo að ekkert breytist á meðan þeir aðilar sem í dag sitja við kjötkatlana verða þar áfram.

Gísli @ 29/6/2011 18.04

Ég tel, úr því sem komið er, farsælast fyrir þjóðina að þjóðkirkjan líði undir lok að fullu og öllu. Hennar tími er liðinn og gott betur. Yfirstjórn þessa skrímslis er valdaklúbbur karla sem, með viðbjóðslegum klækindum, rýgheldur í völdin hvað sem þjóðin eða lýðurinn tautar og raular. Einstaklingarnir í þessum klúbbi eru fyrir löngu búnir að gleyma þeim hreina boðskap sem þeir lærðu í sunnudagaskólanum af Jesú frá Nasareth. Þessir kónar eru að hugsa um starfsöryggi, laun og völd en ekki boðskap Krists.

Það ætti öllum hugsandi íslendingum að vera ljóst að eina lausnin er að þjóðkirkjan verði leyst upp og lögð niður. Upp úr öskustónni gæti svo risið sjálfstæður kristinn söfnuður. Slíkir söfnuðir eru þó raunar til í landinu nú þegar. Ég óska þjóðinni þess að, hvað sem öllu líður, þá verði tengslin rofin að öllu leyti á milli “þjóðkirkjunnar” og ríkisins sem allra, allra fyrst. Það verður að gerast! Helst í gær!

Carlos @ 29/6/2011 20.01

Þakka þér innlitið og innleggið Gísli. Ég er þér ekki sammála, kirkjan og þjóðin eiga samleið og hafa gert það í yfir þúsund ár. Hinsvegar finnst mér ótækt að kirkjan verði einskonar bænaklúbbur æðstu ráða- og embættismanna og við hin verðum svona að sýningarefni. Þessvegna vil ég að þeir sem enn hafa einhverja sæmdartilfinningu taki upp keflið og siðbæti kirkjuna. Það verður aðeins gert innan frá.

Ragnar G. @ 29/6/2011 20.13

Kærar þakkir fyrir þetta Carlos. Frábær pistill hjá þér og orð í tíma töluð.
Helgislepjan þarf að hætta og mjálm um fyrirgefningu skilar engu ef verkin eru ekki látin tala. Hvað þjóðkirkjuna varðar á hinn máttlausi og síljúgandi (”ég kannast ekki við það”) biskup að láta sig hverfa og nýjir vendir mega gjarnan taka við. Meðvirkur og arfaslakur biskup er mun verri en enginn. Nokkrum sinnum hefur heyrst að öflug kona sem arftaki væri eflaust rétta lausnin og tek ég undir það.

Carlos @ 29/6/2011 21.03

Þakka athugasemdirnar, Ragnar. Pistill minn beinist ekki að biskupi eða biskupum einum eða sem hluta í stað heildar. Kerfið er rotið, það leiðir ekki til neins nema ódýrrar náðunar þar sem allir klóra hvers annars bak óháð verðleikum. Biskup getur hjálpað kirkju sinni með því að víkja til hliðar það eitt breytir engu um fyrirtækjamenninguna sem hefur rík í æði langan tíma.

Carlos @ 29/6/2011 21.08

Þakka athugasemdirnar, Ragnar. Pistill minn beinist ekki að biskupi eða biskupum einum eða sem hluta í stað heildar. Kerfið er rotið, það leiðir ekki til neins nema ódýrrar náðunar þar sem allir klóra hvers annars bak óháð verðleikum. Klýfur kirkjuna í tvennt.

Biskup getur hjálpað kirkju sinni með því að víkja til hliðaren það eitt og sér breytir engu um fyrirtækjamenninguna sem hefur ríkt í æði langan tíma.


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli