carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Vörn í guðlastsmálinu · Heim · Uppgjöf – brennuvargar »

Uppgjöf – hliðarspor

Carlos @ 10.04 19/7/11

- af hverju stígurðu ekki til hliðar á meðan málið er skoðað

- veistu hvað margir embættismenn hafa beðið mig að gera það ekki, þeir segja að ef ég geri það, muni skriða fara af stað.

Eitthvað á þessa lund hljómaði bútur úr samtali mínu við hr. Ólaf Skúlason, meðan “biskupsmálið” var í algleymingi. Ég var ekki aðilili að málinu en var nógu skyni gæddur til að vita, að málið var að kljúfa kirkjuna í tvenn og hlyti að vera biskupi óbærilegt. Reyndar hafði mér fundist bresta í saumunum fyrr um veturinn, meðan Langholtskirkjumálið reið röftum á nýstofnuðum póstlista presta í árdaga Internetsins.

Þegar kom að ásökunum Sigrúnar Pálínu og hinna kvennanna, var vígvöllurinn til reiðu og fylkingarnar skýrar. Svartstakkar á móti rest. Ólafur með restinni. Kirkjan varð ófær að takast á við alvöru mál þá og þegar. Allt gekk eftir plani úr “Art of War” eða “Prinsinum”.

Því miður hefur kirkjan, þ.e. vígðir þjónar hennar lítið lært síðan þá. Ennþá vilja menn og konur ekki stíga til hliðar meðan á rannsókn mála stendur og ennþá er unnið að lausn mála í bakherbergju og á ógagnsæjan hátt. Fundir skila litlu öðru en fum, japl og fuður og það besta sem hægt er að búast við, er að menn hittist og ræði málin. Hverjir taka síðan ákvarðanir?

En þetta er útúrdúr. Spurningin sem blasir við er þessi. Hvað er svona vont við að stíga til hliðar meðan að mál eru skoðuð í kjölinn?

Lífvænlegur kostur?
Hliðarspor hafa yfirgnæfandi neikvæða merkingu í huga og raunveruleika okkar sem búum við járnbrautalausar samgöngur. Ég ætti að vita það. Þegar ég barðist um embætti mitt, bauð biskup Íslands mér að stíga til hliðar, taka mér veikindaleyfi, bíða meðan óviðrið geysaði.

-það er svo auðvelt að missa æruna, þegar persónan er komin í fjölmiðla og þeir velta öllu upp.

Það er auðvitað rétt hjá honum og ég hefði ekki orðið fyrstur, eða síðastur til að tapa í æðibunugangi opinberrar umræðu. Þegar rannsókn er hafin á fortíðinni er ekki auðvelt að sitja hjá og láta aðra verja málstað sinn, láta aðra komast að því hvað snýr upp og hvað niður, leyfa öllum sem hafa hugsanlega eitthvað til að finna að við sig, eiga sína rödd. Ekki auðvelt að horfa í spegil sem aðrir halda á lofti og vera þögull, áhrifalaus.

Enda kjósa flestir að verja sig, helst fyrir dómstólum, að velundirbúnu máli.

Auðvelt er að gera mistök sem kosta mikið og það veit ég að þegar boltinn er farinn að rúlla, getur hann tekið á sig mynd langrar, þungrar og hraðskreiðrar járnbrautarlestar sem ekki er auðvelt að stöðva. Hvað eiga þá litlar, hægfara lestir að gera, þegar sú stóra, hraðskreiða nálgast, e.t.v. úr gagnstæðri átt? Jú, þær fara á hliðarspor við fyrsta tækifæri og bíða af sér umferðina. Halda svo ferðinni áfram, ef allt er með réttu.

Hvað er þá málið?

Vandamálið er að í íslensku samfélagi jafngildir hliðarsporið uppgjöf, að því er virðist. Fáir eiga afturkvæmt í embætti sín, ef þeir stíga á annað borð til hliðar. Þetta er alla vega tilfinningin. Af hverju taka kirkjunnar menn og konur þátt í svona óréttlæti, fyrst þetta liggur á borðinu? Af því að til þessa hefur ekki annað þótt rétt en að fara að lögum. En er  það nóg, þegar kirkja er annars vegar?

Kirkja, sem vill og á að vera fyrirmynd annarra þarf að finna nýjar lausnir þegar þær gömlu duga ekki. Kirkja sem er orðin eins og hver önnur stofnun í samfélaginu þarf að hafa svigrúm til að breyta sér, ef hún á að marka nýja og lífvænlegri braut en sama gamla sem leiðir aðeins í lágdeyðuna.

Ég sting upp á að menn mæli með þeim mæli sem Jesús er sagður hafa sett upp. Ef eitthvað hneykslar, taktu það þá. Betra að fara haltur til himna en heill til heljar. Auðvitað þarf þetta ekki að vera svo drastískt. Kirkjan þarf að hafa stöður og sveigjanleika til að leyfa fólki að bíða af sér rannsókn án þess að hætta að vera virkt og starfssamt.

Það kallar á meira en hugarfarsbreytingu hjá kirkjunni. Það kallar á átak í innri skipan kirkju og sókna. Það kallar auk þess á að kirkjan eigi sannleiksnefnd sem getur farið í saumana á málum þegar mál eru fyrnd að lögum eða eru þess eðlis að ekki verður komist að niðurstöðu um sekt og sakleysi.

Eins og staðan er nú hefur kirkjan fá úrræði fyrir þau sem sæta rannsókn. Veikindaleyfi, námsleyfi og afsögn án vonar um endurkomu í fyrra starf nema með mikilli fyrirhöfn og velvilja þeirra sem ráða.

Málið er að kirkjan þarf að geta leyft fólki að bíða á lífvænlegum stað eftir að sannleikur mála komi í ljós og kirkjan þarf að geta brugðist við þeim sannleika eins og kirkja, sem sameinar fólk og sættir!

url: http://carlos.annall.is/2011-07-19/uppgjof-hlidarspor/


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli