carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf

« Uppgjöf – brennuvargar · Heim · Vantrúin og trúnaðurinn »

María, veik hóra á batavegi?

Carlos @ 13.31 1/3/12

, , , , , , ,

La Pieta de Villeneuve-les-Avignon - Enguerrand Quarton, 1455-1460

La Pieta de Villeneuve-les-Avignon - Enguerrand Quarton, 1455-1460

Ein af verstu syndum kristinnar kirkju í gegnum aldir er að mínu mati meðferð hennar á konum. Þrátt fyrir ágætt upphaf, þar sem Jesús virti vinkonur sínar ekki síður en vini, tók að sér og hjálpaði konum jafnt sem körlum, fór brátt að halla undan fæti. Þrátt fyrir að Páll postuli hafi sagt (í prinsípinu) að í Kristi sé hvorki karl né kona, þræll eða frjáls maður (bréfið til Galatamanna), þá tók hann undir hefðbundin viðhorf til kvenna (í praxís): Konur skulu þegja á safnaðarsamkonum (1. bréfið til Korintumanna). Kirkjan er klofin í viðhorfum sínum til mannkyns, annars vegar skal það vera frjálst, hinsvegar er helmingur þess aðeins ójafnari, aðeins öðru vísi, aðeins undirgefnari en hinn hlutinn. Leiðrétting þessa er í járnum í kirkjulegu samhengi, af því að stærstu og voldugustu kirkjudeildirnar vígja ekki konur til presta (en láta þær “redda” málum í prestlausum sóknum), veita þeim ekki jafnan rétt til að móta guðfræði og kirkjustefnu, þótt þær haldi kirkjunni upp og vermi bekki hennar. Eitthvert öflugasta vopn þessa kvenfjandsamleika er lygin. Lygin sem verður endurtekin nógu oft og nógu lengi, að hún verður að sannleika og loks að mýtu sem er endurtekin og nærir hugi manna og kvenna, frá blautu barnsbeini.

Ein slíkra goðsagna, lygisagna er sú, að María Magdalena, sem stóð með Jesú allt til enda og fór að gröf hans með Maríu hinni til að smyrja lík hans, skuli líka hafa verið hóra.

Jóhannesarguðspjall (19 og 20 kafli) gerir veg Maríu Magdalenu mikinn,. Hún er sú fyrsta sem boðar upprisu Jesú, á meðan aðrir lærisveinar hans efast. Hún var ein af konunum við krossinn (ásamt móður og frænku Jesú) á meðan þeir höfðu yfirgefið hann (fyrir utan lærisveininn, sem Jesús elskaði). Frásaga Jóhannesarguðspjalls hvílir á frásögnum eldri guðspjalla sem hvert hefur sínar persónur í kringum dauða og upprisu Jesú, en María Magdalena er sú eina sem er alltaf sú sama. Jóhannesarguðspjall talar um Maríu móður Jesú við krossinn, hin guðspjöllin tala um Maríu “hina”.

Lúkasarguðspjall segir frá því að Jesús hafi rekið sjö illa anda úr Maríu Magdalenu, og annað er það víst ekki sem biblían segir um þessa merku konu. Hvernig í óskupunum varð hún að hóru og hvað er að því?

Fyrir það fyrsta er kynferði og kynlíf eitt þeirra stjórntækja sem notuð eru frá fyrstu tímum, til að halda konum á mottunni. Ég ætla ekki að fjölyrða um það en stökkva beint til tveggja orða eða skammstafana sem sýna hvernig þetta virkar. Fyrra orðið er Cougar, hlébarði. Kona á besta aldri, einhleyp eða ekki með eðlilegar kyn- og samskiptaþarfir. Kona sem hefur frumkvæði og leyfir sér hluti sem karlmenn leyfa sér í samskiptum. MILF er yngri útgáfa hlébarðans, í barneign og til í tuskið.Báðar eru óskadraumur (sumra) karlmanna. Frjálsar og fallegar en frelsið sem þær nýta sér gerir þær að lauslætisdræsum (í besta falli). Karlarnir græða, konan tapar. Kona sem tapar á þessum vettvangi frelsis kynjanna, getur ekki verið boðberi mikilla tíðinda, þannig að mark sé á henni takandi!

Pieta frá Avignon

Buðkur með smyrslum, einkenni Maríu Magdalenu, klædd rauðum kjól.

Í annan stað hafa menn gjarnan slegið saman persónum eða bendlað persónur við siðferðilega vafasama hluti til að geta komið sér undan því að taka mark á þeim. Þetta heitir “guilt by association” og hefur verið iðkað svo lengi sem elstu menninarvitar muna. Tvær konur smurðu fætur Jesú í guðspjöllunum og fengu fyrir það skammir. Önnur var María, systir Mörtu og Lasarusar (Jóhannesarguðsspjall 12. kafli). Hin var ónefnd, bersyndug kona, þess tíma MILF (Lúkasarguðspjall 7. kafli). Jesús tekur málstað þeirra og átelur þá sem líta niður til kvennanna. Einhverra hluta vegna hefur María Magdalena runnið saman við bersyndugu konuna sem smurði fætur Jesú hjá Símoni farísea. Í helgimyndum miðalda (sem voru nýsigögn þess tíma), er hún klædd í rautt (a scarlet letter, hóra) og heldur á buðki með dýrum smyrslum.

Er það ekki frábært, að jafn valdamikil stofnun og gjörvöll kristin kirkja skuli boða lauslátum konum aflausn vegna lífernis síns? Nei, ekki ef það er á kostnað þess að þær eru gerðar ómarktækar og múlbundnar um örlög sín og heimsins, á meðan karlar fá að hafa konur að leikföngum sem er síðan hent út í ystu myrkur fordæmingar.

Ein af verstu syndum karllægs samfélags er hvað það gerir fólk að hlutum. Konur eru ýmist kynlífleikföng eða barnsmóðirin sem ber að vernda. Vei þeirri konu sem tekur málin í eigin hendur. Hennar bíða örlög Maríu Magdalenu, gerð ómerkingur þrátt fyrir að hafa ekkert gert til að verðskulda það annað en að vera sjálfstæð kona.

Athugasemd
Hugsanir þær sem ég tjái hér er að finna stað í umræðu kvenguðfræðinga og annara guðfræðinga í kringum 1975 – 85. Í staðalriti um kristna siðfræði kynlífs, Embodiment e. James Nelson frá þeim tíma, var meginhugsun þessarar greinar fundin orð, þ.e. að samskiptum kynjanna sé svo misfarið af þeim ástæðum sem hér eru raktar, að mannkyn allt líði fyrir þetta kvenhatur kirkjunnar.

Greinin var fyrst birt sem glósa á FB og er tilskrif til Hildar Lillendal, sem hefur tekið saman ummæli um konur á netinu og hlotið verðskuldaða athygli fyrir.

url: http://carlos.annall.is/2012-03-01/maria-veik-hora-a-batavegi/

Athugasemdir

Fjöldi 1, nýjasta neðst

Guðrún Bjarnadóttir @ 1/3/2012 15.08

Takk fyrir þetta


© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli