carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf
 • Annálar

 • Tenglar

 • Eldri færslur

 • Leit

Sacrilege

Carlos @ 09.42 27/9

St. Marcellain og Munster ostar skolað niður með Cherry Coca Cola. Fyrstu viðbrögð Fern við þessu var “Sacrilege” eða Guðlast.

“Grey þykir mér Freyja” var kviðlingur til að æsa upp tilfinningar á Alþingi árið 1000. Misjafnt er það sem fólk kallar goðgá.

Endurskoðun sögunnar

Carlos @ 20.48 25/9

Árið 1989 féll Berlínarmúrinn. Árið 1990/91 seldi Kohl stjórnin flokksgæðingum Leuna verksmiðjurnar, en þær eru risavaxinn atvinnuveitandi í gömlu Austurþýskalandi, stofnuð í fyrra stríðinu.

Endurreisnin tók á sig þá mynd að allt sem hafði verið var tekið niður og allt sem varð, var flutt inn frá vestrinu. Gömlu topparnir og millistjórnendur voru látnir fara svo og þeir fremstu meðal verkamanna. Byggt var frá núllpunkti nánast.

Engu var sleppt. Ekki heldur sögunni, en þýska Wikipedía (http://de.wikipedia.org/wiki/Leuna-Aff%C3%A4re) er furðulega þögul um málið. Af því að þeir sem eftir eru, þora ekki að segja frá. Áhugavert er fyrir okkur, að Eva nokkur Joly kom að rannsókninni …

Þannig verður Ísland á morgun. Bloggarar virðast fara úr límingunum yfir því að Davíð Oddson komist til þess að hafa áhrif á það hvernig sagan verður skrifuð. Mér finnst það aumt, ef við náum ekki að halda uppi háværu og merkingarbæru andófi við sögufölsun þeirra sem geta falsað.

Þjóðin kom Davíð út úr Seðlabankanum. Ætli hún geti ekki skrifað sína sögu sjálf, ef hún vill.

Sveppir í náttúru Íslands

Carlos @ 17.17 13/9 + 2 ath.

Á meðan ég ekki hef bókina, verður þessi frétt Moggans að duga. Mér hefur fundist öruggast að leggjast á sortir í þessum fræðum, en því skal hætt um leið og bókin er í húsi. Ég hef til þessa haldið mig við Kúalubba en nú fer ég að færa mig upp á skaftið og mun tína líka Furusveppi, sem nóg er af í mínu nágrenni.

Bauna- eða kornbuff

Carlos @ 16.18 13/9

Leit að uppskriftum skilaði mér til Sollu á Grænum kosti. Eftir að hafa skoðað nokkrar uppskriftir hjá henni og skv. Google leit, ákvað ég að nota mér grunnregluna 1/4 baunamauk, 3/4 hrísgrjón eða bygg. Hér á eftir kemur mín útfærsla af þessu:

 • 1 bolli linsubaunir, soðnar í 15 mínútur með nokkrum cm af Kombu þangi (til að brjóta niður prumpuprótínin)
 • 3 bollar bankabygg frá Vallanesbóndanum soðið í 40 mínútur
 • nokkur hvítlauksrif, nokkrar gulrætur, nokkrir laukar rifnir í matvinnsluvél
 • Óreganó, salt, pipar, papríkuduft, sesamolía, rauður pipar, sojasósa og sveppakraftur (grænmetiskraftur), tvö egg (til að milda hráabragðið af mjölinu).
 • Öllu hrært saman. Þykkt með hafragrjónum og grófmöluðu speltmjöli (það var til á bænum, annars má nota kartöflumjöl, maismjöl …) og látið standa um stund til að þykkja. Þykktin svipuð og á þungu gerbrauði. Bollurnar mínar gátu ekki dottið í sundur þótt þeim væri borgað fyrir það!
 • Velt upp úr raspi, sesamfræjum, eða hverju sem tínist til (kókosmjöl, möndlur … )
Það borgar sig að krydda sterkt, ef þetta þarf að geta staðið eitt og sér (t.d. í hamborgurum), annars finna góðar sósuuppskriftir. Hentar vel sem málsverður við dúkað borð eða sem nesti í skóla.

Uppskriftin mín skilaði mér um 3,5 l af deigi, nóg fyrir um 20 manns með meðlæti. Áætlaður hráefniskostnaður um kr. 500.

Sigur, jafntefli og tvisvar tapað spil

Carlos @ 13.03 29/8

Það þarf sterkar taugar og góðan maga til að þola þetta! Það gæti verið verra, t.d. enginn sigur, tvö jafntefli og eitt tapað spil. Ég sá mann fórna höndum vegna hins síðarnefnda. Sá var nýkominn úr óbyggðum og ákvað að halda áfram að fylgjast ekki með.

Nei, ég er ekki að skrifa um pólítík heldur þýska fótboltann. Liðið mitt, KSC er hið fyrra. Það leikur í annarri Bundesligunni og var að tapa 0:4 fyrir St. Pauli. Orð fá ekki lýst því sem fer um hugann, munn ….

Hitt liðið er FC Bayern München, sem leikur í Bundesligunni og er í fjórtánda sæti. Ef þeir vinna í dag geta þeir potast upp á við …

Krakkarnir í skólanum, nemendur mínir spyrja mig gjarnan með hvaða liði ég haldi í ensku. Svarið er einfalt. Ekkert. Engan áhuga. Núll. Ég held með mínu heimaliði og það er Karlsruhe, sama hvað gerist.

Tek á móti samúðaróskum hér fyrir neðan en væri fegnari ef einhver gæfi mér áskrift að sýrubindandi magalyfjum og róandi.

Myndin er frá betri tíma, þegar liðið var á leiðinni upp í Bundesliga (2007), fengin frá http://www.flickr.com/photos/boersenbalou á Flickr.

Kynslóðir koma og fara

Carlos @ 10.04 23/8

Henrý Þór hittir naglann á hausinn í dag! Þetta er svo satt að mér er eiginlega illt.

Borgunarmaður?

Carlos @ 20.58 1/7 + 1 ath.

DV beinir sjónum okkar að fimmþúsundmilljón króna lánum tveggja stjórnenda Kaupþings. Þeir munu ekki þurfa að standa skil á, og væntanlega fá niðurfellt. Enda eru hlutirnir sem þeir peningar áttu að kaupa orðnir verðlausir. Þeir nutu að vísu valdanna sem fylgdu hlut þeirra og völdin notuðu þeir til að setja upp svikamyllu sem fær Nígeríusvidlara til að grænka af öfund. Ætli þeir munu þurfa að greiða skatta af niðurfellingu lánanna?

Ég náði ég líka áfanga í dag, klippti í sundur MasterCard greiðslukorti hjá SPRON/Kaupþingi. Það er nú samt ekki svo gott að ég geti fengið það, sem ég skuldaði þar, niðurfellt. Það var of lítil upphæð til þess, og ég gat vel borgað. Bankann eða aðra varðar ekkert um það hvort það sem ég keypti fyrir peningana er verðlaust eða ekki. Ég greiddi skatta af þeim peningum sem ég notaði til að halda í orðspor mitt sem borgunarmanns.

Ég skal segja mig í viðskipti við Kaupþing daginn sem bankastjórar og aðrir sem fengu persónuábyrgðir niðurfelldar, greiða lán sín upp. Ekki fyrr.

Appelsínuöndin

Carlos @ 12.12 28/6

Þriðja vinsælasta færslan á blogginu hér er uppskriftin mín að appelsínuönd. Hún hafði skemmst og því varð ég að laga hana. Fór langt með það í dag. Á eftir að setja inn magntölur og laga tengingar við myndirnar á Flickr.

Grænmetissúpa

Carlos @ 11.26 28/6

Eldaði þessa fyrir hóp af ungu fólki (18 – 30 ára). Eldunartími um 60 – 90 mínútur. Uppskriftin dugir fyrir 30 – 40 manns. Vandamálið við eldamennsku af þessu tagi er stærð pottsins, hellunnar og kryddmagnið. Ef ofkryddað þá þarf að bæta við vatni. Ef of veik má bæta við grænmeti og mauka það þegar það er soðið.

 • 1 kálhöfuð
 • 2 gulrófur
 • 1,5 kg kartöfflur
 • 2 kg gulrætur
 • 6 laukar
 • 1 hvítlaukur (8 rif)
 • 4 lárviðarlauf
 • Steinselja
 • Pipar, salt

Byrjað á því að skera niður kálið og soðið í vatni, síðan laukurinn, lárviðarlaufið, rófur, gulræturnar og loks kartöflurnar. Vatni bætt við í lítravís eftir því sem suðan kemur upp og haldið sjóðandi.

Þegar síðasta grænmetið er komið í pottinn, er það soðið þangað til það er sæmilega meyrt. Lárviðarlaufið fjarlægt. Síðan er öll súpan maukuð með töfrasprota.

Bæta má við grænmeti að vild (bragð og áferð), t.d. mais, tómatar, gúrkur, papríka og hitað þangað til heitt í gegn. Kryddað að smekk, t.d. með engifer, pipar, chillipipar …

Fagsmökkun kaffis

Carlos @ 09.59 28/6

Bein útsending frá heimsmeistarakeppninni í Köln. Tumi náði 6 af 8 réttum, jafn Florence frá Sviss. Meira á heimasíðunni og bein útsending frá atburðinum hér.

Dagrétting. Tumi komst ekki áfram, hefði þurft snögga 7 rétta eða 8 til að ná í 8 manna úrslit. Það var verulega gaman að fá að fylgjast með honum í dag!

« Fyrri færslur   Næstu færslur »

© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli