carlos.annáll.is

AnnállFræðiHeimurSjálfiðTækniUppgjöf
  • Annálar

  • Tenglar

  • Eldri færslur

  • Leit

Jerk Chicken – kjúklingarnir hans afa

Carlos @ 17.01 31/5 + 1 ath.

Það var ekki oft sem afi eldaði, en þegar hann gerði það, var það eftirminnilegt. Maturinn sem stendur upp úr minningunni voru útigrilluðu kjúklingarnir hans. Þeir voru svona “finger lickin’ good” og hefur mér aldrei tekist að ná þeim, því að hann dó frá uppskriftinni. Áfram…

Steinum kastað úr glerhúsi

Carlos @ 09.21 30/5

Þingmaðurinn Einar K. Guðfinnsson kvartar yfir ógagnsæi og óþarfa þingmálum á bloggi sínu í dag. Hann hittir naglann á höfuðið með báðum höggum hamarsins. En samt finnst mér rödd hans fölsk. Af hverju skyldi það vera?

Fyrir það fyrsta hefur leynd og ógagnsæi einkennt íslensk stjórnmál um langan tíma. Hann var sjálfur gerandi í þeirri menningu. Í annan stað leyfir hann ekki athugasemdir á bloggi sínu, þannig að sauðsvartur almenningur verður að færa athugasemdir í sín eigin blogg til að tjá sig um málið (þar minnir hann á mávaskítsforstjóra). Í þriðja lagi gerir hann einfalt mál og sjálfsagt tortryggilegra en þörf er á.

Þjóðin er að sönnu ekki einu máli um aðild landsins að ESB. Sannarlega á þjóðin rétt á því að kjósa um það hvort hún gengur í þau samtök eða ekki. Hún hefur auk þess rétt til þess að ræða um kosti þess og galla frá öllum hliðum.

Ekki er hægt að beita flokksaga á umræðuna og óeðlilegt er að hindra að ferlið fari í gang frá Alþingi. Af hverju? Vegna þess að Alþingismenn eru sjálfir á báðum áttum í öllum flokkum og Alþingi skulda þjóðinni heiðarlegar umræður um málið. Kannski er Einar K. Guðfinnsson hræddur við að þjóðin ákveði sín eigin örlög, en láti ekki ráðherra og alþingismenn um það.

Heimilin eða fjármagnseigendur?

Carlos @ 06.34 27/5

Fyrstu aðgerðir stjórnvalda eftir bankahrunið fólust hins vegar fyrst og fremst í því að vernda hagsmuni fjármagnseigenda. Bankainnstæður voru tryggðar að fullu og eignir í peningamarkaðssjóðum ofmetnar. Aðgerðirnar kostuðu skattgreiðendur mikið fé, en urðu til þess að margir héldu ótrauðir áfram að eiga innstæður á bankareikningum …

Á Íslandi er meira svigrúm til þess að jafna vinnu, tekjur og skuldir en í flestum öðrum þjóðum/löndum sem farið hafa í gegnum fjármálakreppu …

Ef núverandi ríkisstjórn grípur ekki til aðgerða með sanngirni, jöfnuð, kvenfrelsi og réttlæti að leiðarljósi verður hún aldrei neitt annað en síðasti kaflinn í sögu nýfrjálshyggjunnar á Íslandi. - Lilja Mósesdóttir í Smugunni

 

Dómínóáhrif hárra stýrivaxta (gulltrygging fjármagnseigenda) lýsir Jón Þór Ólafsson svona:

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hugsar um hagsmuni fjármagnseigenda í þeim ríkjum sem ráða mestu í sjóðnum, einkum Bandaríkjanna … - Jón Þór Ólafsson á Moggablogginu

 

Bensínverð hér og á meginlandinu

Carlos @ 21.46 24/5 + 4 ath.

Á meðan að bensínverð í Reykjavík er í kringum 165 krónur á lítrann í sjálfafgreiðslu, kostar lítrinn í Strasbourg 210 – 265 krónur. Hinumegin við landamærin, í Þýskalandi kostar hann í kringum 230 krónur.

Lækkanir í Bretlandi, hækkanir hér

Carlos @ 18.12 24/5

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst það vægast sagt nokkuð sérsakt að matarverð skuli lækka í Bretlandi á sama tíma og það hækkar á Íslandi um 20-30%. Kann einhver skýringar á því? … Ríkisstjórn sem leyfir slíku að gerast án þess að grafast fyrir um hvað valdi þessu sérkennilega þróunarferli á samdráttartímum og bregst við er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu. – Jón Magnússon á bloggi sínu í dag

Ég reyni að svara. Hér hefur verið landlægt hátt verð á allri vöru um langan tíma. Með löngum tíma á ég við fleiri ár en ég man eftir mér og nálgast ég þó fimmtugt. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa leyft þessu að viðgangast, þrátt fyrir að sumar ríkisstjórnir höfðu reynt að stýra álagningu á vöru með mismiklum árangri.

Ég held að engin íslensk ríkisstjórn hafi nokkurn tímann haft bolmagn til að brjóta á bak aftur einangrun landsins og einokunarverslun þá sem hér viðgengst (ef ekki í orði þá á borði). Íslendingar borga uppsett verð. Jafnvel þótt varan sé helmingi ódýrari á markaðinum í Kaupmannahöfn eða Frankfurt.

Fram til þessa hefur hluti þjóðarinnar því farið í innkaupaferðir til Glasgow og St. Paul til að gera góð kaup. Nú er þeirri leið lokað vegna afglapa ykkar í tíu ár. Menning síðustu 10 – 15 ára bætti gráu ofan á svart með því að ofurselja almenning græðgi þeirra sem peningana og auðlindirnar hafa.

Stjórnmálamenn okkar gáfu DNA, fiskinn, orkuna og framtíðina mönnum sem þeir handvöldu til að ræna okkur. Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Samfylking fremst í flokki. Þeir létu af sýndarlýðræðinu og komuð á þjófræði.

Ein ríkisstjórn getur ekki snúið þeirri þróun við á hundrað eða tvöhundruð dögum.

Rekstrarleigubílar og önnur SNAFU

Carlos @ 22.48 16/5

Skuldir á bak við bíl sem hægt hefði verið að selja á 3 milljónir í dag standi í 6 milljónum. Umboðin sitji uppi með mismuninn. 6000 bílar komi inn á næstu 3 árum.

Özur (formaður bílgreinasambandsins) segir tvær lausnir mögulegar á þessu vandamáli. Önnur þeirra sé að miða við gengið fyrir 5-8 mánuðum. Fjármögnunarfyrirtækið hafi boðið þessa vöru og ættu að taka þátt í að leysa vandamálið. – http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item266019/

Hvað með þá einstaklinga sem sitja uppi með verðlausa bíla og lánaafborganir á ofurgengi? Eiga fjármögnunarfyrirtækin ekki að koma að lausn þessa líka, enda seldu þeir gallaða vöru? Hvað með að miða gengið við það sem það var í upphafi árs – þannig væri e.t.v. hægt að takmarka skaðann sem einstaklingar verða fyrir af glannaskap fjármögnunarfyrirtækja, banka og útrásarvíkinga!

Verðkönnun á tölvum

Carlos @ 11.44 16/5 + 1 ath.

Tölvutek er ekki dýrasta tölvubúðin í bænum, síður en svo. Saturn er ekki ódýrasta raftækjaverlsunin í Þýskalandi. Samt virðist meir en 50% verðmunur á nánast sömu Packard Bell fartölvu í þessum verslunum, Tölvutek í óvil. Sú sem er seld í Reykjavík hefur 1 gb RAM meir en sú í Þýskalandi, íslenskt ábyrgðarskírteini, og hefur komið með flugi til landsins, þá munar fjörtíuogfimmþúsund krónum. Tölvan kostar €449 í Þýskalandi en €705 á Íslandi. Meira á tvíti þessa morguns.

Því miður gildir þetta um fleiri vörur. Þannig kosta sambærilegir Mac Mini rétt innan við hundrað þúsund krónur í Saturn en tæplega hundrað og þrjátíuþúsund í IceMac á Laugaveginum. Menn gætu núna talað um ábyrgð og flutningskostnað en dæmin af  BT og Humac sanna að stundum fellur ábyrgðin á gjaldþrota fyrirtæki og hið nýja er laust úr snörunni.

Myndvísun: It’s just Jack á Flickr.

Kreppukaup

Carlos @ 17.44 12/5

Í boði er V8 4×4 bíl frá BNA árg. 2007, bensín.

“Fæst gegn yfirtöku á láni og með fylgja 500.000 kr. í hanskahólfinu … lánið er einhversstaðar í kringum 6 milljónir … afborganir 58.000 kr. á mánuði.”

Ég held ekki.

Kreppufóttau

Carlos @ 16.33 12/5

Ég er ekki frá því að ég hafi gert nokkuð góð kaup í þessu notaða skótaui frá breska hernum. Sexþúsund krónur parið hingað komið – rúmar þrjúþúsund krónur fyrir skóna og flutning, tæpar þrjúþúsund aðflutningsgjöld (umsýslan og vsk). Þykkir gúmmísólar, þykkt leður og líta ljómandi vel út á fæti. Nánar á vef Becketts.

Þetta er í fyrsta sinn sem ég kaupi skó án þess að máta þá. Ég var ekki svikinn, þeir eru þæginlegir. Ég hefði mátt kaupa aðeins minni skóstærð. Þeir verða fínir með þykkum sokkum. Nú er bara að finna svipaða í brúnu.

Ég hefði auðvitað geta keypt þá nýja og ótilgengna, en nískupúkinn ég vildi ekki borga helmingi hærri upphæð. Mismuninn er hægt að nota til að kaupa hráefni í fjórar eða fimm máltíðir fyrir fjölskylduna hér heima.

“Frjálslyndur” fýlukall

Carlos @ 12.34 26/4

Með ólíkindum hvað Frjálslyndir töpuðu trúnaði þjóðar á skömmum tíma – eða fjórum árum. Ólíkt því sem Magnús, varaformaður þeirra heldur fram eftir kosningar, álít ég meðferð flokksins á Margréti Sverrisdóttur, sundurþykkni síðustu ára, ummæli gegn útlendingum og þá sérstaklega gegn því að veita palestínskum fjölskyldum hæli á Akranesi hafi átt sinn þátt í að traustið fjaraði undan. Hann má láta gamminn geysa, en ekki batnar vegur hans í bloggheimum eða stjórnmálum við það. Er furða að fáir trúi fagurgalanum?

Verst að maður getur ekki gert athugasemdir á bloggi hans. Hann er búinn að loka og kastar því sínum fýlubombum af húsþaki, ósnertanlegur nema úr fjarlægum bloggum. Ekki mikið hugrekki eða heilindi þar.

« Fyrri færslur   Næstu færslur »

© carlos.annáll.is · Færslur · Ummæli